135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:44]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls undir þessum lið vegna þess að ég vildi aðeins árétta það sem hv. formaður utanríkismálanefndar sagði áðan og ítreka það að stefna NATO varðandi kjarnorkuvopn er óbreytt þrátt fyrir álit þessara fimmmenninga sem eru sjálfstæðir aðilar, ég ætla ekki að segja sjálfstæðir aðilar úti í bæ vegna þess að sökum bakgrunnsins eru orð þeirra að sjálfsögðu tekin alvarlega. Stefnu bandalagsins varðandi kjarnorkuvopn hefur ekki verið breytt og eftir því sem ég best veit hefur sú umræða ekki farið fram innan bandalagsins að breyta henni. Ég tel fullkomlega víst að yrði þeirri stefnu breytt þyrfti að fara fram mikil umræða um það áður. Ég held að það sé engin sérstök ástæða til að óska eftir áliti íslenskra stjórnvalda á þessu að svo stöddu þar sem þetta er svona „hugsanlega ef“-spurning sem þarna er varpað fram og þúsundir aðila út um allan heim álykta daglega um öryggis- og varnarmál og það er hið ágætasta mál að menn beiti sér í þeirri umræðu.

Stefna NATO varðandi kjarnavopn hefur verið sú að notkun þeirra er ekki útilokuð en það yrði aldrei fyrr en í lengstu lög og sem allra seinasta úrræði að þeim yrði beitt. Ég tel að þetta sé ágæt fyrirspurn og fínt, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi hérna, að við séum á tánum og vakandi varðandi þessi málefni en stefnunni hefur ekki verið breytt þrátt fyrir álit þessara fimm manna.