135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður tvennar sem hér hafa farið fram, annars vegar um NATO og hins vegar um Íbúðalánasjóð. Mér þóttu þetta mjög góðar umræður og mjög gott að taka þetta til umræðu. Það er mikilvægt að þingið ræði þessi mál á sínum forsendum — mér fannst aðeins örla á því í annarri fyrirspurninni að verið væri að beina fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar en fyrst og fremst á að ræða þetta hér á vegum þingsins.

Varðandi Íbúðalánasjóð vil ég í fyrsta lagi fagna því að það er, held ég, almenn samstaða um það hér á þinginu að viðhalda honum. Það er alveg ljóst og hefur sýnt sig frá því að bankarnir komu inn á þennan markað — þeir koma inn við tilteknar aðstæður og það er gott að fá þá inn. Það er gott að þeir skuli veita aðhald og samkeppni en á sama hátt hefur það sýnt sig að þegar á móti blæs hjá bönkunum og þeir draga sig aðeins út af þessum markaði, er í fá önnur hús að venda en til Íbúðalánasjóðs.

Það mundi valda almenningi í landinu miklum vandkvæðum ef framboð á fjármagni á þessum markaði væri mjög óstöðugt. Það mundi þýða verðfall tímabundið og fasteignabólur á hinn vænginn. Það er ástand sem ég held að ekki sé hægt að búa við, almenningur getur ekki búið við og við getum ekki treyst því.

Ég vil því fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram sem hefur dregið það fram að almennt er mikill stuðningur við Íbúðalánasjóð og verður áfram. (Gripið fram í: Með Sjálfstæðisflokknum?) Sjálfstæðisflokkurinn hefur, (Forseti hringir.) ég ætla nú ekki að gerast talsmaður hans hér, ekki lagt það til að Íbúðalánasjóður verði (Forseti hringir.) lagður niður.