135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Mér þykir leiðinlegt hve mikið hefur dregist að svara þessari fyrirspurn. Mér skilst að hv. þingmaður hafi gert athugasemdir við að ég hafi forfallast í síðustu viku og ekki getað svarað fyrirspurninni þá og velt því fyrir sér hvort það væri vandamál að fá svör við fyrirspurninni.

Hins vegar stóð til að svara þessari fyrirspurn ásamt fleirum 5. desember en þá reyndist það ekki hægt vegna þess að hv. fyrirspyrjandi forfallaðist. Ef ég fer rétt með þá var hún væntanlega við kosningaeftirlit í Rússlandi á þeim tíma, sem eru eðlileg forföll. En ég held að það sé nú betra að menn kanni staðreyndirnar áður en þeir reyna að vera sniðugir og gera mönnum upp vandkvæði við að svara fyrirspurnum þegar menn hafa lengi verið tilbúnir að svara þeim.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækjanna. Eins og menn vita eru flest orkufyrirtækin í eigu opinberra aðila. Meginmáli skiptir hins vegar að rétt sé staðið að þátttöku orkufyrirtækja í ríkiseigu í útrásarverkefnum. Í þeim efnum þarf að stíga varlega til jarðar.

Snemma á síðasta ári stofnaði Landsvirkjun einkahlutafélagið Landsvirkjun Invest ehf. Eigið fé var þá ákveðið allt að fjórum milljörðum króna. Megintilgangur félagsins voru fjárfestingar í orkutengdum verkefnum. Seint á síðasta ári var svo ákveðið að flytja verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar yfir í Landsvirkjun Invest þannig að félagið hefði undir einum hatti tækniráðgjöf og fjárfestingar. Nafni félagsins var svo breytt í kjölfarið til samræmis við breyttan tilgang félagsins og heitir það nú Landsvirkjun Power. Hér er því um eitt og sama félagið að ræða og Landsvirkjun Invest þrátt fyrir nýtt nafn. Verkfræði- og framkvæmdasvið Landsvirkjunar hefur nú verið lagt niður.

Eignarhluti Landsvirkjunar í þeim félögum sem sýsla með verkefni erlendis hafa verið fluttir í Landsvirkjun Power. Þar á meðal er Hydro Kraft Invest sem Landsvirkjun Power á til helminga á móti Landsbankanum. Hlutur Enex var einnig fluttur undir Landsvirkjun Power og síðan seldur. Starfsemi Landsvirkjunar Power hófst svo formlega um áramótin og eru starfsmenn félagsins nú um 40 talsins. Ekkert framsal réttinda frá Landsvirkjun til Landsvirkjunar Power hefur átt sér stað eða stendur til. Sama á við um Hydro Kraft Invest og það félag hefur engan sér- eða einkarétt á samstarfi við Landsvirkjun og bæði Landsvirkjun og Landsvirkjun Power hafa því frjálsar hendur að vinna með hverjum sem er í verkefnum innan lands eða erlendis í framtíðinni.

Rarik hefur á undanförnum árum þreifað fyrir sér með nokkur minni háttar rafvæðingarverkefni á erlendri grundu þar sem reynsla og þekking starfsmanna Rariks fengi notið sín. Til athugunar hefur verið að stofna sérstakt dótturfélag um þátttöku í útrásarverkefnum. Í júní síðastliðnum samþykkti stjórn Rariks að fyrirtækið fjárfesti fyrir allt að 2 millj. evra, um 175 millj. kr., í fyrirtækinu Blåfall Energi en það stefnir að því að reisa allt að 45 smærri vatnsaflsstöðvar, 1–7 megavött hver í Noregi á næstu fimm árum eða samtals rúmlega 100 megavött. Aðrir eignaraðilar að Blåfall Energi eru Landsbankinn og finnsk og hollensk orkufyrirtæki. Fjárfestingarframlag Rariks greiðist í takt við framvindu þeirra verkefna sem í verður ráðist í Noregi.

Rarik sér í þessu verkefni tækifæri fyrir starfsmenn Rariks til að taka þátt í undirbúningi, hönnun og verkefnastjórnun virkjana í Noregi og ná á þann hátt að nýta þá þekkingu og reynslu sem til staðar er hjá fyrirtækinu en hefur losnað um í bili eftir nýlega stækkun og endurnýjun Lagarfossvirkjunar.

Svarið við spurningu hv. þingmanns um það hvort ráðherra hyggist draga fyrirtækin Landsvirkjun og Rarik út úr útrásarverkefnum sem þau taka þátt í í samstarfi við einkaaðila er því: Nei.