135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í þessu dæmalausa svari ráðherra urðum við vitni að tvöfeldni Sjálfstæðisflokksins sem stendur því miður ekki lengur undir því nafni að vera lýðræðislegur stjórnmálaflokkur heldur er opinberlega orðinn valdagírugur hentistefnuflokkur sem segir eitt á Alþingi þegar um Landsvirkjun og Rarik er að ræða en annað í borgarstjórn þegar um REI er að ræða, eða Orkuveitu Reykjavíkur. Allt eftir því hvað hentar.

Frú forseti. Vald spillir. Það hefur verið niðurlægjandi undanfarna sólarhringa að fylgjast með valdabrölti Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni. Það er greinilega ekki aðeins í orkuútrásinni sem tilgangurinn helgar meðalið hjá þessum flokki og valdinu er misbeitt. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðeins tilbúinn að selja stefnu sína í borginni eða hjá ríkinu eftir því sem hentar fyrir valdastóla heldur einnig tilbúinn til þess að kaupa með blekkingum og lygum fólk til fylgilags við sig. (Forseti hringir.) Megi Sjálfstæðisflokkurinn uppskera eins og hann hefur til sáð.