135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina sem hefur afhjúpað tvöfeldni og tvískinnung Sjálfstæðisflokksins, ekki bara í orkumálunum, því hans verður þessa dagana vart mjög víða.

Landsvirkjun Power og „Landsvirkjun Powerless“ það sem skilið verður eftir í almannaeigu. Þetta er fyrirtæki sem almenningur hefur byggt upp, hugvitið og þekkingin sem nú á að leysa úr læðingi er starfsfólksins sem unnið hefur hjá fyrirtækinu árum og áratugum saman. Það er það sem á að einkavæða eða leysa úr læðingi, eins og orðað er svo smekklega í stjórnarsáttmálanum.

Þetta má Landsvirkjun en þetta má ekki annars staðar. Þetta má ekki gera annars staðar. Hvernig getur maður tekið mark á þessu? Ég tek undir það að það lýsir ekki miklu hugviti, þessi atburðarás í Reykjavíkurborg núna síðustu daga. Ég spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé þar að sýna sitt rétta andlit, andlit valdagræðgi og hroka sem svífst (Forseti hringir.) einskis til að mylja undir sig völd. Ég spyr hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvort þeir séu stoltir af þeim (Forseti hringir.) fréttum að forusta þeirra hafi með blekkingum og lygum rutt úr vegi (Forseti hringir.) andstæðingum sínum við stjórnvölinn í Reykjavíkurborg?