135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hafa athyglisverð orðaskipti átt sér stað, trúlega vegna atburða annars staðar en í þinghúsinu.

En ég vil segja um svar hæstv. ráðherra að ég er eiginlega alveg sammála ráðherra. Mér finnst ekkert óeðlilegt að fyrirtæki í eigu hins opinbera taki þátt í því með einkaaðilum að standa fyrir útrás á erlendri grundu. Það þarf auðvitað að gerast með afmörkuðum og skýrum hætti þannig að þau verðmæti sem sett eru undir í útrásinni séu afmörkuð og sé haldið utan við verðmætin í auðlindum landsins, réttinn til að nýta þau og eignarhald á þeim.

Meðan menn gæta þeirra hagsmuna að fullu finnst mér ekkert athugavert við að hið opinbera taki þátt í að skapa verðmæti, íslensku þjóðinni til hagsbóta, með þessum hætti.