135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:23]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er rétt að taka fram að eins og með fyrri fyrirspurn stóð til að svara þessari fyrirspurn 5. desember en hv. fyrirspyrjandi forfallaðist þá. En fyrirspurnin er:

Mun ráðherra beita sér fyrir afnámi skattlagningar á framlög og styrki sem einstaklingum eru greiddir úr styrktar- og sjúkrasjóðum?

Svarið er á þá leið að skattalög hafa að geyma þá grundvallarreglu að til skattskyldra tekna teljast hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Í samræmi við þetta teljast framlög og styrkir sem einstaklingum eru greiddir úr styrktar- og sjúkrasjóðum. Rétt er að taka fram að þegar útgjöld, t.d. vegna veikinda eða lyfjakostnaðar fara verulega fram úr því sem almennt gerist hjá þorra manna þá er unnt að sækja um ívilnun til skattstjóra. Skattstjóri metur þá þann kostnað sem gerð hefur verið grein fyrir og er til hliðsjónar við lækkun skattstofna við mat á skerðingu gjaldþols samkvæmt 65. gr. tekjuskattslaga. Lækkun þessi tekur þá jafnt til útgjalda sjálfstætt starfandi manns og almenns launþega hvort heldur tekjur stafa frá atvinnurekstri, launum, bótum eða styrkjum. Þess ber sérstaklega að geta að með reglugerð nr. 914/2006 voru styrkir sem veittir eru úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga vegna alvarlegra veikinda undanþegnir staðgreiðslu. Ekki eru uppi frekari áform um breytingu á skattlagningu sjúkrastyrkja enda mundi slík ráðstöfun ekki samræmast megininntaki skattalaganna.