135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:30]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég er að hluta til sammála því sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum. Þegar um er að ræða fólk sem er veikt og er í fjárhagsörðugleikum þess vegna tel ég ekki rétt að greiðslur eins og þessar séu skattlagðar enda standa skattalögin í dag til þess að svo sé ekki. Sú breyting sem var gerð 2006 miðaði að því að þá væri ekki búið að taka staðgreiðslu af þeim greiðslum áður en komið væri að því að skattstjóri gæti tekið tillit til umsóknar um niðurfellingu skatta einfaldlega til að koma í veg fyrir að skattgreiðslurnar ættu sér stað og síðan væri hægt að fá endurgreitt. Þær eiga sér þá aldrei stað í þessum tilfellum.

Ég er hins vegar ósammála því að fólk sem er vel stætt, hefur til hnífs og skeiðar og vel það, sleppi við skattlagningu af tekjum eins og þessum jafnvel þó að þær komi úr sjóðum eins og hér er um að ræða. Ég legg það þar af leiðandi til grundvallar skoðun minni á þessu og þeirri stöðu sem nú er í skattalögum að fólk sem er vel stætt og hefur til hnífs og skeiðar greiði skatta af tekjum sínum þó að þær komi úr þessum sjóðum. Ég tel að vel sé fyrir því séð eins og staðan er í dag að hægt sé að sleppa þeim sem eru í erfiðleikum vegna stöðu sinnar við skattgreiðslur af þessu. Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessum málum.