135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Húsaarfur Seyðfirðinga frá aldamótunum 1900 á fyrri hluta síðustu aldar er mjög merkilegur. Seyðfirðingum hefur tekist ótrúlega vel að varðveita hann þrátt fyrir miklar sveiflur í atvinnulífinu alla síðustu öld. Aldamótahúsin setja mikinn svip á bæinn og eru kjarninn í ásýnd hans og sjálfsmynd. Stór og reisuleg hús voru byggð bæði af einstaklingum og bæjarfélaginu. Athyglisvert er af hve miklum stórhug Seyðfirðingar byggðu skóla, sjúkrahús, rafveitu og fleiri merk hús á þeim tíma. Kaupmenn byggðu verslunarhús sem sum hver hafa verið varðveitt með miklum sóma. Einnig eru mjög mörg hús í eigu einstaklinga sem almennt hafa sinnt vel viðhaldi á þeim. Bærinn er því mikill spegill húsaarfs Íslendinga og vilja Seyðfirðingar sýna hann og viðhalda honum af reisn. Í verkefninu Aldamótabærinn er einmitt gert ráð fyrir þessum húsaarfi sem grundvelli að nýrri atvinnusköpun á sviði menningar- og ferðamála. Húsahótelið er t.d. einn hluti þess verkefnis þar sem nokkur gömul hús hafa verið gerð upp með lúxushótelherbergjum innanborðs. Það sýnir á hversu skemmtilegan hátt hægt er að flytja anda liðins tíma inn í þjónustu við ferðamenn.

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur átt sum þeirra húsa sem byggð voru af hvað mestum stórhug og hefur gert þeim vel til góða. Má þar nefna barnaskólahúsið sem byggt var af miklum stórhug árið 1907 og er enn í notkun. Einnig má nefna íbúðarhús Ottós Wathnes sem byggt var 1894 og seinna stækkað þegar fyrsti sæsímastrengurinn var lagður til landsins og húsið hýsti ritsímann. Seyðisfjarðarkaupstaður eignaðist húsið þegar Póstur og sími byggði yfir sig og réðst þá í mikið viðhald sem hafði verið trassað þegar húsið var í eigu ríkisstofnunarinnar Pósts og síma.

Ríkisvaldið og stofnanir þess hafa staðið mjög misjafnlega að viðhaldi húsa sinna á Seyðisfirði. Vil ég nefna að Rarik hefur gert Fjarðarselsvirkjun með miklum sóma og er þar nú lifandi safn sem ákaflega fróðlegt og skemmtilegt er að skoða. Húsið, sem hýsir sýslumannsembættið á Seyðisfirði, var byggt af Stefáni Th. 1907. Tekin var ákvörðun um það fyrir tíu árum að gera það hús upp í upprunalegri mynd og er það eitt af glæsilegri húsum á Seyðisfirði í dag. Þar stóð fjármálaráðuneytið sig sérstaklega vel.

Þá kemur að því húsi sem er umræðuefnið í dag, Hafnargata 11, sem hefur gengið undir ýmsum nöfnum. Innréttingarnar í húsinu eru mun eldri en húsið en þær komu úr verslun Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði og eru frá því um aldamótin 1900. Húsið hefur alltaf þjónað sem verslunarhúsnæði. Verslun ÁTVR hefur verið í húsinu frá 1959 og hefur það þjónað sem verslun fyrir ÁTVR frá þeim tíma. Þegar ÁTVR ákvað að flytja verslun sína annað tók fjármálaráðuneytið sig til og lét gera úttekt á húsinu. Um það er fróðlegt að heyra frá fjármálaráðherra en það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti 10. desember sl. þegar verktakar úr Reykjavík mættu til að rífa niður þær innréttingar og brjóta þar með húsfriðunarlög. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig standi á þessu og hef lagt fram fyrirspurnir á þingskjali um það efni.