135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði hafa um nokkurra ára skeið verið til umfjöllunar milli fjármálaráðuneytisins og Seyðisfjarðarkaupstaðar á mismunandi forsendum án þess að niðurstaða hafi náðst um lyktir málsins. Allt frá árinu 2002 hefur fjármálaráðuneytið notið ráðgjafar frá Minjavernd við þá vinnu.

Í upphafi var sett saman greinargerð með tillögum um framtíðarstaðsetningu hússins og starfsemi sem í húsinu gæti verið. Með þeirri greinargerð fylgdi kostnaðaráætlun vegna framkvæmda þar sem staðfest var að fjármálaráðuneytið væri reiðubúið að láta talsverða fjármuni til verkefnisins ef svo mætti til takast. Af ótilgreindum ástæðum höfðu heimamenn, a.m.k. fram til þess tíma sem innréttingarnar voru teknar niður, ekki gengið til samninga við ráðuneytið um þá leið sem þá var gert ráð fyrir að yrði farin og ekki samþykkt síendurtekin tilboð ráðuneytisins eða tillögur á liðnu ári til lausnar. Fyrir bragðið var það mat forsvarsmanna ÁTVR að innréttingum væri hætta búin í núverandi húsnæði og til að tryggja öryggi þeirra tóku þeir ákvörðun um að taka innréttingarnar úr húsinu á meðan leitað væri lausna á framtíð þeirra og hússins.

Í framhaldi af uppákomu sem varð í kjölfar ákvörðunar ÁTVR kynnti ráðuneytið bæjaryfirvöldum nýja útfærslu á verndun hússins og innréttinganna. Fulltrúi ráðuneytisins og Minjaverndar áttu síðan fund með bæjarstjóra og starfsmönnum Seyðisfjarðarkaupstaðar í síðustu viku þar sem kynnt voru drög að samningi um tilhögun verndar og starfsemi. Eftir töluverðar umræður og yfirferð á þeim drögum auk lítils háttar breytinga náðist niðurstaða sem allir málsaðilar geta verið sáttir við.

Inntak samkomulagsins er í stuttu máli að fjármálaráðuneyti afsalar húsinu til Minjaverndar með ákveðnum samningi þessara tveggja aðila. Minjavernd skuldbindur sig til að ljúka því að endurgera húsið að utan ásamt umhverfi á næstu þremur árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að sá hluti hússins á 1. hæð sem innréttingarnar eru í verði endurgerður að fullu af hálfu Minjaverndar á sama tímabili. Seyðisfjarðarkaupstaður kostar frágöngu götu og gangstéttir og greiðir fyrir öllum eðlilegum framkvæmdum vegna endurbyggingar hússins. Að lokinni endurbyggingu að utan er gert ráð fyrir að Minjavernd í samvinnu við heimamenn finni húsinu nýtt hlutverk og framtíðareiganda. Ákvörðun og ábyrgð er Minjaverndar í því efni. Gert er ráð fyrir að sú starfsemi sem þar mun verða ljúki endurgerð hússins að öðru leyti og tryggi notkun hússins og aðgang almennings að því. Ráðgert er að á húsið verði settar kvaðir um friðun að endurgerð lokinni bæði vegna ytra byrðis og vegna innréttinga á 1. hæð. Jafnframt að sá hluti sem verlsunin er í verði opinn a.m.k. yfir sumartímann fyrir almenning. Stefnt er að því að ganga endanlega frá samningi aðila á næstu vikum.