135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

Háskólinn á Akureyri.

249. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini hér fyrirspurn til menntamálaráðherra um málefni Háskólans á Akureyri sem við hæstv. ráðherra þekkjum mætavel eftir gott samstarf í síðustu ríkisstjórn um málefni þeirrar stofnunar. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hvernig hyggst ráðherra treysta stöðu Háskólans á Akureyri sem grundvöll háskólamenntunar á landsbyggðinni, samanber byggðaáætlun 2006–2009?

Ég gegndi stöðu formanns iðnaðarnefndar á síðasta kjörtímabili og við tókum þá fyrir byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 sem var samþykkt samhljóða hér á þingi óháð því hvar í flokki menn stóðu. Í nefndarvinnunni þá voru menntamálin sérstaklega tekin fyrir og í nefndarálitinu var sérstaklega kveðið á um að menntamálaráðherra eða Alþingi ætti að tryggja stöðu Háskólans á Akureyri sem undirstöðu háskólamenntunar á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi Háskólans á Akureyri fyrir háskólamenntun almennt á landsbyggðinni. Það hefur sýnt sig að þeir sem sækja menntun til Akureyrar, til Háskólans á Akureyri kjósa oftar en ekki að búa á landsbyggðinni og það er mjög mikilvægt fyrir byggðarlög á landsbyggðinni að fólk eigi kost á því að ná sér í háskólamenntun, jafnvel frá sínum heimahögum, til þess að bæta við sína þekkingu, sem er mjög mikilvægt fyrir samfélögin. Enda hefur Háskólinn á Akureyri rækt það hlutverk sitt mjög vel að halda meðal annars úti öflugri fjarkennslu sem hefur skipt mjög miklu máli fyrir mörg byggðarlög vítt og breitt um landið.

Eins og gefur að skilja er því hér um mjög mikilvægt mál að ræða og svo sem hafa á undanförnum árum mörg stór skref verið stigin í þá átt að styrkja stöðu Háskólans á Akureyri. En á tímum mikils samdráttar, meðal annars í þorskveiðum og mikils samdráttar vítt og breitt um land, er kannski hlutverk Háskólans á Akureyri aldrei eins mikilvægt og það er í dag.

Því hef ég viljað inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða hugmyndir eru nú í gangi til styrkingar starfsemi skólans, sem er eins og áður sagði mjög mikilvæg, og hvort Háskólinn muni hugsanlega fá hlutdeild í áætluðum peningum til mótvægisaðgerða, hvort nokkuð sé hugað að því varðandi svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar að Háskólinn á Akureyri gegni þar veigamiklu hlutverki því eins og ég sagði áðan, þá er Háskólinn á Akureyri undirstaða háskólamenntunar á landsbyggðinni. Það var samþykkt þegar við samþykktum hér samhljóða byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og nú inni ég hæstv. ráðherra eftir því hvað líði því að fylgja því sem samþykkt (Forseti hringir.) var í þeirri byggðaáætlun.