135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

Háskólinn á Akureyri.

249. mál
[15:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni um málefni Háskólans á Akureyri. Ég lagði þessa fyrirspurn fram á haustdögum en þá var ekki búið að skrifa undir nýjan kennslu- og rannsóknarsamning við háskólann, sem ég var helst að fiska eftir með fyrirspurninni.

En ég fagna því að búið sé að skrifa undir þennan kennslu- og rannsóknarsamning. Ég er sammála þeim ræðumönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni um að mikilvægt er að hann sé árangurstengdur. Við viljum að sjálfsögðu sjá enn betri árangur í starfsemi og rekstri Háskólans á Akureyri, sem hefur batnað mjög mikið á undanförnum árum.

Ég legg áherslu á að það er þverpólitísk samstaða um málefni Háskólans á Akureyri. Við hæstv. ráðherra máttum á síðasta kjörtímabili máttum sitja undir mjög hörðum ásökunum samfylkingarmanna á þingi, sem því miður hafa ekki tekið þátt í umræðunum í dag, um hve slælega við stæðum okkur í málefnum Háskólans á Akureyri. Ég held að sagan segi annað.

Enginn íslenskur háskóli hefur vaxið eins mikið á undanförnum árum og Háskólinn á Akureyri. Þótt við framsóknarmenn séum ekki lengur í ríkisstjórn munum við áfram sinna málefnum Háskólans á Akureyri og halda hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarflokkunum við efnið. Rétt eins og hv. þingmenn, m.a. hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, bentu á þá skiptir þessi skóli miklu máli fyrir háskólamenntun á landsbyggðinni. Við náðum mjög góðri samstöðu um það á síðasta kjörtímabili þegar við samþykktum byggðaáætlun og munum standa saman, öll sem eitt, um starfsemi og málefni Háskólans á Akureyri.