135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

Háskólinn á Akureyri.

249. mál
[15:06]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að mikilvægi Háskólans á Akureyri verði seint nógu vel undirstrikað. Það er afar mikilvægt að þessi rödd sé einróma frá hinu háa Alþingi að við sameinumst öll um að efla háskólann enn frekar.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á, að við þurftum að sitja undir ýmsum ásökunum á síðasta kjörtímabili. En við vissum það líka, bæði tvö, ég og hv. fyrirspyrjandi, að til að koma Háskólanum á Akureyri á réttan kjöl þyrfti að gera ákveðna þætti frá rekstrarlegu sjónarmiði. Rekstrarlegir þættir hafa áhrif á faglegu þættina. Þar hefur verið tekið til hendinni undir öflugri forustu háskólarektors og annarra sem þar eiga hlut að máli. Það leiðir til þess að auðveldara og betra er að fara í að gera samninga, árangurstengda samninga, af því að við sjáum að undirstöðurnar eru styrkari en áður til að ganga til móts við nýja tíma.

Það er rétt að ýmislegt hefur breyst síðan hv. fyrirspyrjandi lagði fram fyrirspurn sína. En ég vil líka draga fram að ég reyndi að svara henni fyrir jól. En þá var hv. þingmaður að sinna skyldustörfum annars staðar á landinu, þannig að það komi fram.

En ég fagna sérstaklega samhljóminum héðan, sem er mikilvægur, reyndar ekki bara varðandi Háskólann á Akureyri heldur varðandi alla háskólastarfsemi. Hún fleytir okkur áfram til farsældar, meiri og betri en er í dag.