135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

listgreinakennsla í framhaldsskólum.

270. mál
[15:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn í þremur liðum til hæstv. menntamálaráðherra varðandi listgreinakennslu í framhaldsskólum. Ég spyr:

1. Til hvaða ráðstafana hefur ráðuneytið gripið í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis frá 2. apríl sl., þess efnis að það leiðrétti hlut framhaldsskólanema sem hafa þurft að bera sjálfir kostnað vegna náms við tónlistarskóla sem tekið hefur verið gilt til stúdentsprófs?

2. Hvaða listaskólar hafa heimild til að kenna listgreinar sem teknar eru gildar til stúdentsprófs eða annars lokaprófs úr framhaldsskólum?

3. Hver er stefna ráðuneytisins varðandi listgreinakennslu á framhaldsskólastigi og hvaða breytinga er að vænta í þeim efnum á næstunni?

Hæstv. forseti. Ég viðurkenni að þetta er nokkuð viðamikil fyrirspurn. En tilefni hennar er, eins og kemur fram, að 2. apríl birti umboðsmaður Alþingis álit sitt, mikinn doðrant, á því sem tveir tónlistarnemendur í framhaldsskóla höfðu kvartað yfir til umboðsmannsins, vegna kostnaðar sveitarfélaga sinna við tónlistarnám. Þetta varð til þess að umboðsmaður ákvað að kanna hvernig þessum málum væri háttað almennt í framhaldsskólunum en framhaldsskólarnir eru, eins og kunnugt er, lögum samkvæmt á forræði ríkisins.

Það lætur nærri að um 1.000 framhaldsskólanemar hafi verið á listabrautum undanfarin ár og margir hafa lagt stund á tónlist. Við búum við sérstaka löggjöf um fjármögnun tónlistarskólanna sem gerir ráð fyrir því að sveitarfélögin beri þar meginábyrgð. En breyttum einingum til stúdentsprófs þá er það, eins og umboðsmaður segir, á ábyrgð ríkisins eða sem sagt menntamálaráðherra, að standa straum af kostnaði við rekstur framhaldsskóla.

Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskólans, segir umboðsmaður Alþingis, að tónlistarnám sé skilgreindur hluti af því námi sem nemendum á listnámsbraut eigi að standa til boða. Eftir að umboðsmaður skoðaði ákvæði stjórnarskrár og alþjóðalaga, auk laga um framhaldsskóla og laga um fjárstuðning við tónlistarskóla, komst hann, hæstv. forseti, að þeirri niðurstöðu að ekki væri fullnægjandi lagaheimild fyrir því að ríkið skipulegði starf framhaldsskólanna þannig að nemendur þyrftu að greiða sjálfir sérstaklega fyrir tónlistarnám, sem nemur í mörgum tilfellum hátt í 900 þús. kr. fyrir hvern nema, þegar einingarnar eru allar taldar.

Umboðsmaður beinir því þess vegna til menntamálaráðuneytis, í lok álitsins, að það breyti um sið í þessum efnum og geri enn fremur viðeigandi ráðstafanir vegna þeirra sem þegar hefðu sjálfir þurft að bera kostnað af námi í tónlistarskóla. Eftir því sem næst verður komist kynnu ekki einungis nemendur á tónlistarbrautum heldur einnig (Forseti hringir.) sveitarfélögin, sem borguðu með þeim, að eiga heimtingu á endurgreiðslum frá menntamálaráðuneytinu.