135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

listgreinakennsla í framhaldsskólum.

270. mál
[15:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis, þar sem hann lýsti því viðhorfi að framhaldsskólinn skuli vera nefndur gjaldfrjáls að öðru leyti en því sem nemur sérstökum innritunar- og efnisgjöldum, þá vil ég geta þess að sú afstaða umboðsmanns kann að vera rétt að því er varðar kjarnanámsgreinar í framhaldsskóla en ég dreg í efa að hið sama eigi við námsgreinar á svonefndum kjörsviðum og nám sem metið er sem hluti af frjálsu vali, samanber 21. gr. framhaldsskólalaga.

Samkvæmt 16. gr. laganna er unnt að stunda nám í framhaldsskóla á svonefndum 105 eininga listnámsbrautum til undirbúnings frekara náms í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi. Þar af telst nám á tónlistarkjörsviði vera 45 einingar. Um starfsemi tónlistarskóla gilda sérstök lög en samkvæmt þeim er tónlistarskólum skylt að innheimta skólagjöld sem ætlað er að standa straum af öðrum kostnaði tónlistarskóla en launum kennara og skólastjóra. Sú innheimta hefur ekki verið talin stríða gegn framangreindum ákvæðum laga um framhaldsskóla.

Þungamiðjan í áliti umboðsmanns varðar 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins sem hljóðar svo:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“

Út af þessu leggur umboðsmaður það svo að tónlistarnám á tónlistarkjörsviði á listnámsbraut í framhaldsskóla geti talist til almennrar menntunar og skuli því vera gjaldfrjálst. Fyrir þessari niðurstöðu færði umboðsmaður þau rök að tónlistarnám sem skipulagt er af hálfu hins opinbera sé hluti af framhaldsnámi eftir skyldunám, að skilgreina megi það sem undirbúningsnám fyrir háskóla og þar með sem almenna menntun í skilningi stjórnarskrárinnar.

Ég er ósammála þessu atriði í áliti umboðsmanns. Ég vil meina að nám á tónlistarkjörsviði sem er hluti af 105 eininga listnámsbraut sem lokið er á þremur árum geti ekki uppfyllt skilyrði til að teljast undirbúningsnám fyrir háskóla, enda verði námslokum af tónlistarkjörsviði ekki jafnað til stúdentsprófs, þannig að menn hafi það í huga.

Af samanburði tónlistargreina við kjarnagreinar í framhaldsskóla — menn verða að hafa í huga muninn á kjarnagreinum og kjörsviði — verður enn fremur ráðið að tónlistarnám, sem eitt og sér miðar að frekara sérnámi og felur ekki í sér stúdentspróf, sé óhjákvæmilega sérnám og standi því utan gildissviðs 76. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel engan vafa ríkja á um að fullnægjandi lagastoð sé fyrir því námi á tónlistarkjörsviði sem lýst er í aðalnámskrá framhaldsskóla.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá hefur álit umboðsmanns Alþingis m.a. orðið tilefni til þess að nú er tekið fram í 43. gr. í frumvarpi til laga um framhaldsskóla að rekstrarframlagi ríkisins til framhaldsskóla sé ekki ætlað að standa straum af námskeiðsgjöldum, skráningum eða skólagjöldum sem innheimt kunna að vera af öðrum skólum, þar með talið tónlistarskólum vegna náms sem metið er til eininga í framhaldsskólum.

Hvað varðar leiðréttingu á hlut þeirra nemenda sem hafa sjálfir þurft að bera kostnað vegna náms í tónlistarskóla þá hef ég leitað álits ríkislögmanns. Í áliti hans kemur fram að samkvæmt reglum skaðabótaréttarins telst ólíklegt að nemandi sem þannig er ástatt um eigi bótarétt á hendur ríkinu. Hér er um að ræða lögboðin skólagjöld samkvæmt lögum um tónlistarskóla sem ekki hafa runnið til ríkisins. Ríkislögmaður telur með öðrum orðum ólíklegt að nemandi sem sjálfur hefur kosið að haga námi sínu á tónlistarsérsviði án þess að um skyldunám sé að ræða eigi skaðabótarétt á hendur ríkinu.

Varðandi aðra spurninguna þá bendi ég á að tónlistarskólum sem bjóða upp á tónlistarkennslu á mið- og framhaldsstigi samkvæmt námskrá ráðuneytisins starfa eftir reglugerðum sem sveitarfélög hafa sett um þá og menntamálaráðuneytið staðfest. Um er að ræða tónlistarskóla um allt land. Í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum kom í ljós að tónlistareiningar voru metnar hjá nemendum í um 20 framhaldsskólum. Í öðru lagi eru Myndlistaskólinn í Reykjavík og Myndlistaskólinn á Akureyri viðurkenndir af menntamálaráðuneytinu. Í þriðja lagi nefni ég listdansskóla sem viðurkenndir eru af ráðuneytinu og kenna samkvæmt námskrá listdans á framhaldsskólastigi. Þrír skólar hafa hlotið þá viðurkenningu, Dansmennt ehf., sem starfrækir Listdansskóla Íslands, Klassíski listdansskólinn og Danslistaskóli JSB.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður:

„Hver er stefna ráðuneytisins varðandi listgreinakennslu á framhaldsskólastigi og hvaða breytinga er að vænta í þeim efnum á næstunni?“

Stefna ráðuneytisins um listgreinakennslu birtist í fræðslulögum, reglugerðum og námskrá. Ég bendi hv. þingmanni á að athuga það sem þar stendur.

Hins vegar vil ég geta þess sérstaklega að mikil gerjun hefur átt sér stað í listnámi á öllum skólastigum undanfarin ár. Listgreinar eru í stöðugri endurskoðun í takti við samfélagsbreytingar eins og reyndar allir aðrir þættir menntakerfisins. Áður var nefnt að nýlega hafi verið gerðar breytingar á aðalnámskrá sem m.a. víkkar skilgreiningu á listgreinum í framhaldsskólum. Þar ber hæst nýjar greinar, ég vil vekja athygli á þessu, sem tengist nýrri upplýsingatækni, svo sem margmiðlunarhönnun og nám í listdansi. Þessar greinar eru nú skilgreindar til eininga í aðalnámskrá framhaldsskóla.

Í nýjum frumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi birtast nýjar áherslur í menntastefnunni. Á framhaldsskólastigi er dregið mjög úr miðstýringu námsframboðs og skólum veitt aukið frelsi til að sérhæfa sig og bjóða upp á námsleiðir. Þannig má gera ráð fyrir að nemendur geti lagt stund á fjölþætt listnám í framhaldsskólum standi hugur þeirra til þess og jafnframt geti þeir nýtt listnám sem hluta af námi til ólíkra lokaprófa, framhaldsskólaprófs, stúdentsprófa og starfsréttindaprófa af ýmsu tagi.

Hér birtist sú stefna, herra forseti, að listnám, verknám og bóknám verði metið að jöfnu (Forseti hringir.) og að námskröfur verði sambærilegar á sama námsstigi framhaldsskólans, óháð eðli námsins. Listgreinum er gert hærra undir höfði.