135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

innflutningur landbúnaðarvara.

296. mál
[15:26]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa ábendingu hv. þingmanns. Ég get tekið undir það með honum að það væri mjög fróðlegt að geta fylgst með því hvernig þessi þróun hefur verið sem hlutfall af innanlandsneyslu. Ég mun sjálfur athuga hvort hægt sé að afla þessara talna með einhverjum hætti. Þær voru ekki tiltækar þegar ég undirbjó þetta svar en ég er sammála hv. þingmanni að það væri mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta hefur þróast.

Við sjáum af tölunum sem ég las áðan að þróunin er nokkuð misjöfn eftir kjöttegundum. Ég vil hins vegar árétta og undirstrika það sem ég sagði í svari mínu áðan, og hv. þingmaður vakti svo athygli á, og það er að þær breytingar sem við viðhöfðum síðasta haust varðandi útboð á tollkvótanum hafa skilað sér með þeim hætti sem að var stefnt. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt vegna þeirrar umræðu sem sífellt fer fram um vöruverð í landinu að við reynum að fylgja því eftir og fylgjast með því hvort þetta skili sér ekki örugglega í vasa neytenda. Út á það gengur þetta, bæði að auka vöruúrval og lækka matvælaverðið í landinu án þess að það raski stöðu íslensks landbúnaðar. Ég held að það fyrirkomulag sem þarna var verið að taka upp nái þessum markmiðum mjög vel.