135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

losun koltvísýrings o.fl.

299. mál
[15:39]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Verkefnið snýst um, eins og hv. fyrirspyrjandi veit og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir einnig, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Um það snúast þessi verkefni. Um það deilum við ekki, við deilum ekki um hlýnunina þó að menn geti deilt um leiðir til að stemma stigu við henni. Það er mjög varhugavert að fara þá leið í þessari umræðu að alla endurnýjanlega orku á Íslandi eigi að nýta til framleiðslu eins tiltekins málms. Það er ekki leiðin til að ná skynsamlegri umræðu um þessi mál. Það getur vel verið að einhverjum finnist að það eigi að vera og í þeim spurningum sem hv. þingmaður lagði fyrir mig ber hann saman álframleiðslu við kolabrennslu og vatnsafl. Hin verðmæta orka sem við eigum og er óvirkjuð mun aðeins hækka í verði, ég held að allir geri sér grein fyrir því, og það skiptir mjög miklu máli að við, löggjafinn og íslenska þjóðin, komum okkur saman um hvernig eigi að nýta hana og hvar eigi að vernda náttúruna eða nýta hana með öðrum hætti.

Við þurfum líka að hafa í huga að öll sú orka sem hingað til hefur verið rætt um sem endurnýjanlega er ef til vill ekki jafnendurnýjanleg eða -óendanleg og menn hafa viljað vera láta. Það á t.d. við um jarðvarmageymana sem við nýtum mjög vel, en við vitum ekki hvort við þurfum að hvíla þá eða hversu lengi og hvenær að því kemur. Við getum ekki farið í þessa umræðu, hæstv. forseti, út frá því að þetta snúist bara um álframleiðslu og hvernig hún eigi að fara fram eða hvar í heiminum, heldur um það markmið að draga úr losuninni í öllum geirum.