135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

öryggismál í sundlaugum.

316. mál
[15:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á öryggismálum í sundlaugum landsins í ljósi umhverfisslyssins í Varmá í Hveragerði. Tappi í klórgeymi við sundlaugina í Laugaskarði gaf sig og klórgeymirinn var í öryggiskari sem brást þegar á reyndi þannig að 800 lítrar af mjög sterkri klórblöndu runnu út í umhverfið og skiluðu sér niður í Varmá. Það varð mikill fiskadauði á svæðinu og áhrifin ná örugglega yfir mjög stórt svæði, marga kílómetra. Menn sáu smáseiði og stóran hrygningarfisk fljóta dauðan um ána en þarna er lax, urriði, bleikja, hornsíli, áll, flundra og ósakoli. Það er ljóst að flestir halda að þetta slys muni hafa mjög mikil áhrif á fiskigengd í Varmá á komandi árum. Nú þegar hafa nokkrir aðilar rannsakað þetta mál. Ég nefni Tryggva Þórðarson, vatnalíffræðing hjá Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands í Hveragerði, og frá Veiðimálastofnun hafa komið að þessu Magnús Jóhannsson fiskifræðingur og Benóný Jónsson líffræðingur þannig að það er verið að rannsaka málið. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál og það telja líka þeir sem hafa áhyggjur af náttúrunni almennt og vilja vernda hana og jafnframt þeir sem nýta hana.

Ég vil nefna að tvenn samtök hafa ályktað um þetta mál, bæði Landssamband stangaveiðifélaga og Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Það hefur verið bent á að víða eru laugar. Það eru fá ár síðan rann úr Árbæjarlauginni í Elliðaárnar. Það var miklu þynnri blanda og miklu minna magn, líklega um 50 lítrar þá, en hafði talsverð áhrif á Elliðaárnar. Það er sundlaug á Flúðum og þar er Laxá nálægt, það er sundlaug á Varmalandi sem gæti haft áhrif á Norðurá í Borgarfirði og það er sundlaug t.d. í næsta nágrenni við Selá á Vopnafirði. Geysilegir umhverfishagsmunir og miklir fjárhagshagsmunir hanga á spýtunni. Bændur taka tugi milljóna króna í stangaveiðileyfum í gegnum þessar mikilvægu laxveiðiár og aðrar veiðiár. Ég tel að það verði að gera einhvers konar úttekt á sundlaugunum, á öryggismálum þeirra og að forráðamenn sundlauga verði að fara yfir þessi mál.

Ég bendi líka á skaðabótaskylduna, t.d. með slysið í Hveragerði. Er bærinn skaðabótaskyldur? Það er búið að selja Stangaveiðifélagi Reykjavíkur leyfi, það félag heldur utan um stangaveiðileyfin í þessari á í einhver ár og núna breytast forsendurnar. Í Englandi hefur svona mál komið upp og þar þurfti að borga miklar skaðabætur vegna árinnar Wendel, einnar af þekktari urriðaám landsins. (Forseti hringir.) Það þurfti að endurnýja stofninn og menn þurftu að borga skaðabætur í verndarsjóð sem stangaveiðimenn héldu utan um þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist taka á þessu máli.