135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

öryggismál í sundlaugum.

316. mál
[15:45]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst er það að segja í svari við þessari fyrirspurn að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir taka til öryggisþátta og eftirlits með þeim þáttum sem eiga að draga úr mengun. Samkvæmt lögunum skulu sundstaðir hafa gilt starfsleyfi sem er gefið út af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

Í reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, er kveðið á um að heilbrigðisnefnd geti gert kröfur um að innra eftirlit sé í starfsemi þar sem sérstakra öryggisráðstafana er þörf. Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 457/1998, er fjallað um mengunarvarnir á sundstöðum og er í reglugerðinni lögð megináhersla á innra eftirlit, þ.e. eftirlit rekstraraðila með starfseminni sem framkvæmt er af honum sjálfum, starfsmönnum hans eða þjónustuaðila í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Í ráðuneyti umhverfismála er nú unnið að heildarendurskoðun á umræddri reglugerð um sund- og baðstaði með hliðsjón af reynslu undanfarinna missira.

Það er mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með sund- og baðstöðum og það er hlutverk þeirra að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum starfsleyfa og reglugerða sem gilda um starfsemi sundstaða. Mikilvægast er að innra eftirlit í sundlaugum sé virkt til þess að draga úr hættunni á óhöppum eða slysum og þá er auðvitað nauðsynlegt að starfsmenn sundlauganna kunni vel að fara með tæki, kunni á mælitæki, búnað og efni vegna hreinsunar vatnsins og fái reglulega viðeigandi þjálfun í meðferð þessa búnaðar.

Kveðið er á um þessa þætti í reglugerðinni um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Ég tel ekki endilega nauðsynlegt að gera sérstaka úttekt á sundstöðum almennt vegna þess sem gerðist í Varmárlauginni í Hveragerði, en það þarf að brýna fyrir heilbrigðisnefndum að tryggja að eftirfylgni með starfsemi sundstaða sé í samræmi við kröfur þar að lútandi. Ráðuneytið hefur vakið sérstaklega athygli á því við Umhverfisstofnun sem starfar með heilbrigðisnefndunum. Við endurskoðun reglugerðarinnar um sund- og baðstaði legg ég áherslu á að tryggt verði að öryggi og mengunarvarnir á sund- og baðstöðum séu fullnægjandi.

Ég tek að auki undir með hv. fyrirspyrjanda, þetta eru alvarleg slys og geta valdið skaða, jafnvel á fólki eru dæmi um, á dýralífi eða öðru. Það þarf að búa svo um hnútana að almennilegt eftirlit sé, alls öryggis sé gætt á sundstöðum og að komið sé í veg fyrir að svona geti endurtekið sig.