135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta.

[10:32]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nánast daglega berast fréttir af uppsögnum innan fiskvinnslunnar og nú er hægt að tala um hundruð manna í því sambandi sem misst hafa vinnuna. Að sjálfsögðu var það fyrirséð þegar ákveðið var af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að draga þorskveiðar saman um þriðjung. Ríkisstjórnin kynnti 12. september mótvægisaðgerðir sem voru mjög ófullnægjandi en svo virðist sem hæstv. forsætisráðherra hafi nú gert sér grein fyrir því og hann hefur boðað nefndarstarf til úrbóta. Ég útiloka að sjálfsögðu ekki fyrir fram að það geti ekki borið árangur. Við framsóknarmenn gagnrýndum mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar þegar þær komu fram. Við gerðum meira, við lögðum fram tillögur um það hvernig við hefðum viljað taka á málum. Hæstv. forsætisráðherra kallaði tillögur okkar framsóknarmanna sjóðasukk en ég vil gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að bæta ráð sitt.

Af tillögum okkar framsóknarmanna er það að frétta að ein af þeim gekk út á að gefa því fólki sem missir vinnuna tímabundið tækifæri til að afla sér menntunar og þjálfunar í allt að fjórar vikur á launum sem taki mið af tekjum þeirra síðustu tvö árin. Við hugsum okkur sérstakan sjóð í þessu sambandi sem atvinnurekendur gætu sótt í en það er ekkert aðalatriði hvernig farið yrði í þetta. Auðvitað er Atvinnuleysistryggingasjóður til staðar o.s.frv.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að það fólk sem missir vinnuna tímabundið geti aflað sér, sér að kostnaðarlausu, menntunar eða þjálfunar einhvern veginn á kostnað á stjórnvalda?