135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:44]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegast að spyrja sjávarútvegsráðherra þeirrar spurningar, sú nefnd starfar á hans vegum.

Við skulum ekki gera lítið úr þeim vanda sem upp er kominn í einstökum byggðarlögum. Við skulum horfast í augu við hann af raunsæi. Það þarf líka að hafa í huga að hluti af þeim mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin boðaði á sínum tíma kemur ekki til framkvæmda fyrr en á þessu ári og var ekki ætlað að gera það. Ákvörðunin frá því í sumar miðaðist við fiskveiðiárið sem hófst 1. september og útgerðirnar í landinu og sjávarútvegurinn hefur skipulagt sig með tilliti til þess, endurskipulagt sóknina hjá sér o.s.frv. Það er of snemmt að hafa hér uppi miklar hrakspár eins og hv. þm. Ögmundi Jónassyni er nú því miður mjög títt.