135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

álver í Helguvík.

[10:47]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Losunarheimildum vegna yfirstandandi skuldbindingartímabils okkar við loftslagssamninginn, sem oft er kennt við Kyoto-bókunina, var úthlutað í fyrsta sinn 1. október sl. Það ber að endurskoða úthlutunina á hverju ári og það verður gert í þau fimm ár sem skuldbindingartímabilið stendur yfir. Eins og mönnum er kunnugt um var í raun úthlutað öllum almennum heimildum í haust og, ef ég man rétt, u.þ.b. 85% þeirra heimilda sem eru til ráðstöfunar á þessu fimm ára tímabili.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna vegna þess að hún vekur athygli okkar á því hversu langt á undan þeir menn eru oft í umræðunni um uppbyggingu verksmiðju eða annarrar atvinnu. Það ber að benda á það að vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Helguvík hefur fyrirtækið ekki aflað sér allrar þeirrar orku sem mér skilst að það þurfi til að geta byggja eitt slíkt álver. Það hefur ekki tryggt flutningsleiðirnar til þess að flytja orkuna í verksmiðjuna til að tryggja starfsemi slíks álvers. Það hefur heldur ekki orðið sér úti um þau leyfi sem mönnum og fyrirtækjum ber að verða sér úti um til að starfrækja slíka starfsemi.

Það er ekki fyrr en allt slíkt, vænti ég, er komið í hús, frágengið, undirritað og algjörlega pottþétt sem menn geta farið að auglýsa eða tala eins og starfsemin sé handan við hornið.