135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

álver í Helguvík.

[10:49]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Já, það er dálítið sérkennileg staða að menn séu farnir að auglýsa eftir starfsfólki. Reyndar hefur Reykjanesbær lagt í mikinn kostnað við byggingarlóð undir álver og allt virðist vera klárt þó að kannski sé orkuþátturinn ekki alveg nægur. Hann er þó nógur fyrir fyrsta áfanga. Þess vegna furðar maður sig á því — eða er verið að fela eitthvað, bíða með eða leyna fólk því að það eigi að úthluta mengunarkvóta til þessa álvers?

Þetta passar ekki alveg saman, gjörðir fyrirtækisins og það sem umhverfisráðherra segir. Ég hefði haldið og mundi draga ályktun af því að fyrirtæki sem er farið að auglýsa eftir starfsfólki í álver vissi eitthvað meira en ráðherra gefur hér í skyn. (Forseti hringir.)