135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

[10:51]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur í fyrirspurnatímanum borist í tal bágt atvinnuástand sums staðar á landinu og eðlilega leita menn ýmissa ráða til að mæta því og viðra ýmsar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu, bæði góðar og slæmar.

Ein slík hugmynd er um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og ég vildi fá að nota þetta tækifæri til að inna hæstv. umhverfisráðherra eftir afstöðu hennar til þeirra hugmynda sem og þeirra umhverfisþátta sem það verkefni snerta, bæði áhrif á ásýnd lands og náttúru, hættu á mengunarslysum og síðast en ekki síst loftslagsþáttinn, mengunina sjálfa sem frá slíkri starfsemi kemur. Við fjölluðum einmitt í síðustu fyrirspurn um mengunarheimildirnar, og nauðsynlegt er að fá greinargóðar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þann þátt málsins einnig.