135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[11:40]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpið er til innleiðingar á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang og tilskipun 2003/108/EB um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang.

Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af umhverfisráðherra. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneyti, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Umhverfisstofnun, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarpið byggist á svokallaðri framleiðendaábyrgð. Settar eru skyldur á framleiðendur og innflytjendur til að fjármagna, safna, meðhöndla og eftir atvikum endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Markmið frumvarpsins er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.

Notendur raf- og rafeindatækja á heimilum munu eiga möguleika á því að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi á almennar söfnunarstöðvar í sveitarfélögum án þess að greiða fyrir það. Það eru því framleiðendur sem eiga að fjármagna söfnun frá söfnunarstöðvum og meðferð, endurnýtingu og förgun á rafeindatækjaúrgangi. Þannig skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna meðferð úrgangs frá eigin framleiðslu. Framleiðandinn getur valið um það hvort hann uppfyllir þessa skyldu einn eða með því að taka þátt í sameiginlegu skilakerfi. Skilakerfi er skilgreint sem fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framleiðendur og innflytjendur geti leyst sína framleiðendaábyrgð með ýmsum hætti. Framleiðendur og innflytjendur geta sjálfir tekið sig saman um að stofna skilakerfi, sjálfstætt fyrirtæki gæti tekið að sér rekstur skilakerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur og eins getur hver einstakur framleiðandi eða innflytjandi uppfyllt sjálfur sínar skyldur.

Framleiðendur og innflytjendur geta sjálfir tekið höndum saman og stofnað sameiginlegt skilakerfi, sjálfstætt fyrirtæki gæti tekið að sér rekstur skilakerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur og eins getur hver einstakur framleiðandi eða innflytjandi uppfyllt sjálfur sínar skyldur með eigin skilakerfi.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að skýra ábyrgðarsvið sveitarfélaga annars vegar og framleiðenda og innflytjenda hins vegar. Sveitarfélögin eiga á söfnunarstöðvum sínum að bjóða upp á gáma fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Það er á valdi sveitarfélaganna hversu margar söfnunarstöðvar eru í hverju sveitarfélagi og hvernig þeir söfnunarstaðir eru reknir. Sátt er um að sveitarfélögin sjái um að hafa ákveðin gámastæði fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang á söfnunarstöðvum án greiðslu gegn því að framleiðendur taki að sér meðhöndlun á öllum raf- og rafeindatækjaúrgangi sem verður til en ekki einungis hluta úrgangsins eins og tilskipunin reyndar frá Evrópusambandinu gerir ráð fyrir.

Mikilvægt er að gott eftirlit verði með því að kerfið í heild sinni skili þeim árangri sem að er stefnt. Í frumvarpinu er lagt til að Umhverfisstofnun veiti leyfi vegna reksturs skilakerfis en að allt almennt eftirlit með að framleiðendur og innflytjendur standi við skyldur sínar verði í höndum stýrinefndar sem í sitji fulltrúar hagsmunaaðila. Lagt er til að stýrinefnd hafi umsjón með skilakerfum, þar á meðal að gæta þess að fyrirtæki sem bera framleiðendaábyrgð uppfylli sínar skuldbindingar. Það er hlutverk Umhverfisstofnunar að taka á móti upplýsingum frá stýrinefnd eftir flokkum raf- og rafeindatækjaúrgangs og vinna úr þeim upplýsingum en stýrinefnd hefur umsjón með starfi skilakerfanna.

Í frumvarpi þessu er lögð höfuðáhersla á að tryggja að allir þeir sem flytja inn eða framleiða ákveðna vöru sem framleiðendaábyrgð er á taki þátt í fyrirhuguðu kerfi. Lagt er til að stýrinefnd beri að halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja. Skráin er einn af grundvallarþáttum kerfisins þar sem henni er ætlað að koma í veg fyrir að einstakir framleiðendur eða innflytjendur standi utan kerfisins. Þessi skrá gerir einnig auðveldara að safna saman nauðsynlegum upplýsingum frá framleiðendum og innflytjendum og öðrum aðilum sem koma að kerfinu.

Eðlilegt er að framleiðendur og sveitarfélögin eigi samráð um hvernig beri að tryggja að almenningur fái aðgang að upplýsingum um skil á raf- og rafeindatækjum. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin sjái um að kynna sín söfnunarkerfi, t.d. hvar almenningur getur skilað raf- og rafeindatækjaúrgangi og hvaða tækjum þeir taki við. Það sé hins vegar á ábyrgð framleiðenda að kynna fyrir almenningi hvaða tækjum beri að skila til söfnunarstöðva.

Ég mun nú gera nánari grein fyrir helstu ákvæðum frumvarpsins.

Í 1. gr. frumvarpsins eru nokkur hugtök skilgreind, m.a. hverjir teljist framleiðendur og innflytjendur. Það er aðili sem framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki eða endurselur búnað undir eigin vörumerki sem aðrir birgjar framleiða. Einnig telst sá vera framleiðandi og innflytjandi sem flytur raf- og rafeindatæki inn eða út frá Íslandi í atvinnuskyni. Mikilvægt er að skilgreiningin sé óháð þeirri sölutækni sem er notuð og nái þannig m.a. yfir fjarsölu.

Í 2. gr. er fjallað um skyldur sveitarfélaga, ábyrgð framleiðenda og innflytjenda og skyldur skilakerfa. Eins og ég hef áður nefnt er lagt til að söfnunarstöðvum sveitarfélaga beri að bjóða upp á móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum, hvort sem sveitarfélög gera það beint eða semja við einkaaðila um að reka söfnunarstöðvar í viðkomandi sveitarfélögum. Eðlilega geta aðrar söfnunarstöðvar boðið þessa þjónustu en þeim ber engin skylda til þess. Skyldan liggur einungis hjá söfnunarstöðvum sveitarfélaga.

Þá er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að taka á móti öðrum raf- og rafeindatækjaúrgangi en frá heimilum. Tiltekið er að söfnunarstöðvum sveitarfélaga sé heimilt að taka gjald vegna kostnaðar við móttöku og geymslu slíks úrgangs.

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja tekur til þess að fjármagna og tryggja úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs með aðild að skilakerfi. Þeir geta uppfyllt ábyrgð sína sameiginlega eða hver um sig. Kveðið er á um skyldur þeirra til að fjármagna meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva sveitarfélaga og geymslu á söfnunarstöð sveitarfélaga. Mikilvægt er að skylda skilakerfa til að safna raf- og rafeindatækjaúrgangi nái til landsins alls án tillits til þess hvar vara er seld. Þannig er tryggt að allir landsmenn njóti sambærilegrar þjónustu hvað varðar skil á raf- og rafeindatækjaúrgangi.

Þá er fjallað um þær kröfur sem skilakerfi þurfa að uppfylla. Framleiðandi og innflytjandi skulu bera ábyrgð á þeim flokkum raf- og rafeindatækjaúrgangs sem hann flytur inn eða framleiðir hér á landi. Hins vegar er framleiðanda og innflytjenda heimilt í undantekningartilvikum að undanþiggja sig ábyrgð þegar um er að ræða mjög stór eða sérhæfð tæki sem ljóst er að muni ekki verða skilað sem almennum raftækjaúrgangi, t.d. umfangsmiklum búnaði í verksmiðjum.

Í þeim tilgangi að auðvelda endurnotkun og rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs er lagt til að framleiðendum og innflytjendum beri að veita upplýsingar um rétta meðhöndlun hverrar gerðar af nýjum raftækjum og rafeindatækjum sem sett eru á markað til þeirra aðila sem sjá um meðhöndlun slíks úrgangs.

Skilakerfum er ætlað mikilvægt hlutverk. Þeim er heimilt að taka yfir skyldur framleiðenda og innflytjenda. Helstu skyldur skilakerfis eru að tryggja að úrgangi sé safnað án gjaldtöku frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga og skal hafa samráð við sveitarfélögin um fyrirkomulag við söfnunina. Samráðið skal m.a. taka til þess hvenær úrgangur er sóttur hjá hverri söfnunarstöð og hvernig. Skilakerfi ber að safna og taka við raftækja- og rafeindatækjaúrgangi alls staðar á landinu. Verði skilakerfin fleiri en eitt er þeim heimilt að skipta landinu á milli sín til að tryggja hagkvæmni. Í því sambandi legg ég áherslu á að jafnvel þótt skilakerfi hafi t.d. umbjóðendur sem selja einungis vörur á höfuðborgarsvæðinu er skyldan fortakslaus um að þeim beri að safna á landinu öllu nema að búið sé að skipta því með staðfestum samningi milli skilakerfa.

Mikilvægt er að skilakerfið hafi nægilegt fjármagn til að tryggja að það geti staðið við skuldbindingar sínar fyrir hönd viðskiptavina sinna. Er það hlutverk stýrinefndar að fylgjast með að skilakerfi geti staðið við skuldbindingar sínar. Skylda skilakerfis nær til að safna og taka á móti hlutfalli af heildarmagni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem jafngildir markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem samning hafa við það. Er það verkefni stýrinefndar að reikna út hlutfall þessa raf- og rafeindatækjaúrgangs sem einstökum skilakerfum ber að safna.

Mikilvægt er, þegar svo umfangsmikið verkefni sem hér um ræðir er fært til atvinnulífsins, að tryggt sé að allir aðilar standi við sínar skuldbindingar. Því er lagt til að Umhverfisstofnun þurfi að veita leyfi til rekstrar skilakerfis. En það verði verkefni stýrinefndarinnar að fylgjast með að skilakerfið uppfylli skyldur sínar og gefa Umhverfisstofnun upplýsingar um það.

Lagt er til að stjórn Úrvinnslusjóðs gegni hlutverki stýrinefndar en í henni eiga sæti formaður, skipaður án tilnefningar og meðstjórnendur, sem skipaðir eru að fenginni tilnefningu viðkomandi aðila. Það er einn með sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins, einn frá Samtökum verslunar og þjónustu, einn frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þannig er gert ráð fyrir að bætt verði við núverandi stjórn Úrvinnslusjóðs fulltrúa Félags íslenska stórkaupmanna.

Skýr greinarmunur er gerður á því hvenær stjórnin er að störfum samkvæmt lögum um úrvinnslugjald og hvenær hún sinnir verkefnum stýrinefndar. Stýrinefndinni er ætlað það hlutverk að hafa umsjón með starfsemi skilakerfa, þ.e. að skilakerfin uppfylli skyldur sínar og safni upplýsingum frá þeim til þess að koma til Umhverfisstofnunar. Stýrinefndin er samstarfsvettvangur atvinnulífsins og þannig ætlað að tryggja að allir innflytjendur og framleiðendur axli ábyrgð sína og hún deilist niður á þá í samræmi við innflutning og framleiðslu.

Mikilvægt er að telji stýrinefnd að skilakerfið uppfylli ekki skyldur sínar beri henni að tilkynna það til Umhverfisstofnunar sem getur gripið til viðeigandi ráðstafana. Til að tryggja að allir sem flytja inn eða framleiða raf- og rafeindatæki sem falla undir frumvarpið beri ábyrgð er þeim skylt að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda a.m.k. 15 dögum áður en varan er markaðssett hér á landi.

Frú forseti. Víðtæk samstaða er meðal hagsmunaaðila um kerfið sem lagt er til að sett verði á laggirnar með frumvarpi þessu. Við samningu þess hefur áhersla verið lögð á samráð og sátt við hagsmunaaðila og hefur það tekið lengri tíma en ætlað var í upphafi. Af þeim ástæðum eru þeir frestir sem íslensk stjórnvöld höfðu til innleiðingar tilskipunarinnar liðnir og því mikilvægt að frumvarpið verði að lögum eins fljótt og kostur er.

Hæstv. forseti. Að umræðunni lokinni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til umhverfisnefndar.