135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[11:53]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa ánægju minni með frumvarpið sem hæstv. umhverfisráðherra hefur mælt fyrir. Ég tel eðlilegt að framleiðendum og innflytjendum rafeindatækja skuli gert að ábyrgjast að tryggja fjármagn til úrvinnslu á þessum tækjum. Ég tel að það mætti jafnvel hugsa sér að skoða fleiri flokka úrgangs með þessum hætti í framtíðinni.

Ég ber hag sveitarfélaga nokkuð fyrir brjósti. Ég heyrði í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að málið er lagt fram í sátt við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem átti fulltrúa í nefndinni sem vann þetta frumvarp. Ég lít svo á að kostnaður sem hlýst af þessum breytingum fyrir sveitarfélögin sé ekki mikill. Hann felst kannski eingöngu í því að sjá til að hafa gáma á söfnunarstöðvum sveitarfélaga og ætti ekki að vera mjög mikill.

Hins vegar taka fjölmörg sveitarfélög í dag á móti raf- og rafeindatækjum á söfnunarstöðum sínum og bera af því allan kostnað og að því leyti tel ég að þetta frumvarp sé til bóta hvað varðar sveitarfélögin.

Ég tel mikilvægt að skilakerfið sem slíkt verði virkt. Það er grundvöllurinn fyrir því að þetta geti gengið upp og framsetningin í frumvarpinu er nokkuð flókin. Við lestur þess sé ég ekki alveg hvernig þetta kemur til með virka. En ég lít svo á að nefndin taki það til sérstakrar athugunar. Ég tel afar mikilvægt að kerfið virki vel þannig að frumvarpið þjóni markmiði sínu.