135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[11:56]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að hér skuli skila- og förgunarmálum raftækja komið í ákveðið horf. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt því að á síðustu árum hefur almenningur, jafnt sem ráðamenn, í vaxandi mæli gert sér grein fyrir því hve mikilvæg endurvinnsla er, bæði með hagsmuni umhverfisins í huga og það að tryggja sem best nýtingu á auðlindum jarðar.

Raf- og rafeindatæki, sem er sérstaklega fjallað um í þessu frumvarpi, eru mikilvægur málaflokkur þegar kemur að endurvinnslu. Það skiptir máli að í slíkum tækjum getur verið að finna alls konar efni sem nauðsynlegt er að tryggja að fari ekki út í umhverfið, svo sem sýrur og þungmálmar. Annað veigamikið atriði varðandi þessi tæki er sú staðreynd að þau eru undantekningarlítið frekar flókin að gerð. Þau eru oft sett saman úr ýmsum ólíkum hlutum eins og plasti, gúmmíi, málmum og öðrum efnum.

Það er afar mismunandi hvaða leiðir sveitarfélögin í kringum okkur hafa farið varðandi endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum. Svíþjóð og Austurríki eru dæmi um lönd sem nálgast hafa þetta viðfangsefni af hvað mestum metnaði en þar er áherslan lögð á að taka þessi tæki eins mikið í sundur og mögulegt er til að geta sent einstaka hluta þeirra í endurvinnslu. Önnur lönd fara þá leið að mylja úrganginn í smátt og bræða, lítið sem ekkert flokkaðan. Ég vona að íslensk stjórnvöld setji sér það markmið að við förum í hóp endurvinnslu með Svíþjóð og Austurríki og pillum hlutina í sundur en setjum þá ekki í einn stóran kassa og bræðum.

Ég saknaði þess svolítið að sjá enga slíka stefnumótun í þessu frumvarpi. Mér finnst líka samsetningin á stjórn Úrvinnslusjóðs, eins og kveðið er á um í 7. gr. þessara laga, ekki gefa nógu mikið tilefni til bjartsýni. Þeir hagsmunaaðilar sem gert er ráð fyrir að skipi stjórn sjóðsins eru, eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Sambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins, einn frá Samtökum verslunar og þjónustu, einn frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ég hef áhyggjur af því að markmið þessara aðila gæti fyrst og fremst orðið að tryggja sem ódýrasta förgun á úrgangi sem til fellur við starfsemi þeirra. Mér þætti æskilegt að innan stjórnar sjóðsins heyrðust fjölbreyttari raddir, t.d. frá þeim sem mundu leggja áherslu á meiri og vandaðri endurvinnslu. Má þar nefna samtök á borð við Landvernd og fulltrúa frá umhverfisfræðadeildum háskólanna.

Ég velti fyrir mér, varðandi samsetningu stjórnarinnar, að þar eru fulltrúar atvinnulífsins með afgerandi meiri hluta en sveitarfélögin í landinu hafa aðeins einn fulltrúa. Engu að síður eru það sveitarfélögin sem eiga að bera ábyrgð á málaflokknum og bera af honum kostnað. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að sá aðili sem ber kostnaðinn og ábyrgðina á framkvæmdinni hafi sem mest um stefnumótunina að gera.

Ég vildi aðallega koma þessu tvennu á framfæri. Mér finnst að sveitarfélögin verði sem ábyrgðaraðili að hafa mikið um málaflokkinn að segja og svo hitt atriðið, sem ég byrjaði á að gera grein fyrir, að ég vona það að við skipum okkur í sveit með þeim sem taka tækin til betri endurvinnslu, endurvinni þau eins og mögulegt er en setji ekki bara í stóra hrúgu og bræði allt heila klabbið.