135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[12:01]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er verið að reyna koma ákveðnu skipulagi á mjög mikilvægan málaflokk og í sjálfu sér stuðst við módel sem aðrir hafa fundið upp og hafa væntanlega reynt í Evrópu. Ég tel því enga ástæðu til að ætla annað en að hin tæknilega útfærsla á þeirri leið sem valin er sé sæmilega reynd og athuguð. Það er hlutur sem menn skoða í hv. þingnefnd þegar menn kalla eftir umsögnum helstu hagsmunaaðila málsins og sjónarmiðum þeirra til þess. Þá kemur það fram ef þeir sjá einhverja sérstaka agnúa á tæknilegri útfærslu málsins.

Aðalatriðið í mínum huga er að hafa kerfi í málinu, að hafa stefnu um að eyða úrganginum, safna honum saman og koma honum fyrir kattarnef með einhverjum tryggum hætti. Það er aðalatriði málsins og um það fjallar frumvarpið þannig að ég geri engan ágreining um það. Ég tel að nauðsynlegt sé að ganga frá hlutunum með tryggilegum hætti í þeim efnum.

Það er nauðsynlegt til þess að slíkt kerfi geti virkað að ábyrgðin sé skýr og verkaskipting sé skilmerkileg á milli aðila, að ljóst sé hver gerir hvað, hver beri ábyrgð á hverju og til staðar sé einhver stjórn og eftirlitsaðili sem fylgist með því að hlutirnir gangi eins og til er ætlast. Mér sýnist að frumvarpið geri ráð fyrir því að skilgreina ábyrgð og verkefni og setja upp aðila sem annast stjórnun og sé ég því ekki annað en að þetta eigi í megindráttum að ná því fram sem til er ætlast.

Það er hins vegar alltaf álitamál hvort rétt sé að þessi aðili beri þessa ábyrgð eða ekki eða að einhver annar beri ábyrgðina. Eins og fram kom í síðustu ræðu má velta því fyrir sér hvort sveitarfélögin eigi yfir höfuð að hafa þessa ábyrgð með höndum eða hvort einhver annar aðili eigi að annast þetta. Ég skal ekki útiloka að það kunni að vera hægt að finna aðra útfærslu eða fela öðrum aðila þetta verkefni en sveitarfélaginu sjálfu. Það skiptir hins vegar miklu máli að sveitarfélögin eru fús til að taka þetta verkefni að sér og hafa góða möguleika til að sinna því. Mér sýnist því að málið sé í ágætum höndum, að sveitarfélögin hafi þá ábyrgð að hafa aðstöðuna fyrir hendi þar sem hægt er að safna saman þessum úrgangi.

Framleiðendur eða innflytjendur bera þá ábyrgð á rekstrinum sjálfum, kostnaðinum, og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Við þurfum auðvitað að hafa í huga að á endanum er það neytandinn sem ber kostnaðinn. Gjaldið er innheimt með einhverjum hætti í verðinu til þess sem kaupir hlutinn. Kostnaðurinn liggur því hjá almenningi á endanum og því er eðlilegt og nauðsynlegt að hugað sé að því að kerfið sem sett er upp geti verið hagkvæmt þannig að kostnaður við söfnun og eyðingu sé sem minnstur.

Í þessu eru álitamál sem mér finnst ástæða til að skoða í meðferð þingnefndar. Ég geri ráð fyrir að ráðuneytið hafi skoðað það fyrir sitt leyti í undirbúningi málsins og hafi sannfærst um að hafa hlutina með þeim hætti sem lagt er til. En það er líka eðlilegt að þingnefndin geri sjálfstæða athugun á því, eða kynni sér a.m.k. þær athuganir sem fram hafa farið.

Mér finnst t.d. að skoða þurfi hlutverk stýrinefndarinnar sem á jafnframt að vera stjórn Úrvinnslusjóðs. Þegar sami aðili á að gegna tveimur hlutverkum þarf að skoða hvort það fari vel saman, hvort einhver skörun sé á hagsmunum. Ef svo er ekki eru svo sem ekki neinir annmarkar á því að hafa fyrirkomulagið eins og lagt er til en ef í verkefnunum leynast hagsmunir sem kunna að skarast þarf að fara yfir það og ganga þá þannig frá málinu að sem minnstar líkur séu á að ákvarðanir sem eru teknar skaði neytendur að lokum eða rekstur kerfisins eða annað sem að er stefnt að ná fram.

Mér finnst lakara að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um kostnaðinn. Ekki hefur verið lagt mat á hann og kannski er ekki þægilegt að setja fram áætlun um það. Kostnaðurinn er þó það sem allt snýst um á endanum. Það er því nauðsynlegt að reyna að átta sig á því hver hann getur orðið og skoða hvort sú leið sem valin er í frumvarpinu sé ekki örugglega sú sem er líklegust til að tryggja minnstan kostnað.

Virðulegi forseti. Í þessu eru síðan atriði sem ég hef ekki sett mig mikið inn í. Það er þá tæknileg útfærsla sem menn gefa sér tíma til að athuga í nefndarstarfinu. Við fyrstu sýn sýnist mér skipting landsins í svæði og annað slíkt vera eðlileg framkvæmd til þess að tryggja að kerfið sé fyrir hendi og gangi með sem ódýrustum hætti. Það er þá væntanlega neytendum til góðs.

Ég legg mikla áherslu á eitt í þessu máli eins og öðrum málum af sama toga en það er að þær kröfur sem ríkið gerir eða þingið gildi um land allt, að gerðar séu sömu kröfur um land allt og það er af biturri reynslu. Fyrir hálfum öðrum áratug voru gerðar mjög miklar kröfur til Ísfirðinga um sorpeyðingarstöð. Þeim gert að koma sér upp brennslubúnaði sem var mjög dýr. Ég hef ekkert á móti því að þar var valin sú leið að gera kröfur um fullkomnasta búnað. Það hefur sína kosti og Ísfirðingar og nágrannar þeirra hafa notið góðs af því í þeim skilningi að eyðsla á sorpi er til fyrirmyndar. En annars staðar voru gerðar allt aðrar kröfur. Slakað var á kröfunum þegar fjárhagslegu hagsmunirnir fóru að verða meiri og snerta fleiri. Mig minnir að sömu kröfur hafi verið gerðar í Vestmannaeyjum á svipuðu árabili og gert var á Ísafirði en eyðing á úrgangi hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar, eins og í Eyjafirði, er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Það er enginn frágangur í sorpeyðingarmálum að safna öllu sorpi saman og urða það í haugum og setja síðan jarðveg yfir. Þetta er engin eyðing, þetta er bara önnur ruslatunna. Þetta á eftir að koma í hausinn á fólki. Mér finnst að það vanti meiri metnað hér á höfuðborgarsvæðinu til þess að gera hlutina með sómasamlegum hætti. Mér finnst það ekki til fyrirmyndar sem hefur viðgengist hér.

Sveitarfélögin virðast komast upp með þetta, kannski vegna þess að þau eru svo stór, sterk og öflug og svo nálægt löggjafarvaldinu og ráðuneytinu að menn leggi ekki í að gera ágreining við þau eða setja á þau kröfur sem eru ríkari en þau eru tilbúin til að axla. En einhvern veginn þarf að fá sveitarfélögin hér, og reyndar víðar um land, inn á þá skoðun, helst með góðu og kannski einhverjum þrýstingi með, að viðurkenna að þetta gengur ekki svona. Við getum ekki haldið því áfram mörg ár í viðbót að kalla þetta eyðingu. Þetta er engin eyðing.

Það datt nú eiginlega af mér andlitið, virðulegi forseti, þegar ég hafði búið hér í nokkur ár og komst að því að úrganginum sem var flokkaður frá heimilunum og keyrður í tveimur ílátum upp í Sorpu, hina miklu stöð höfuðborgarmanna, var sturtað þar saman á eitt og sama gólfið. Þetta var eins og í frystihúsinu í gamla daga, allar fisktegundir í einum haug — ég held reyndar að það hafi ekki verið svo slæmt, menn hafa alltaf haft vit á því í frystihúsum úti á landi að flokka fisk eftir tegundum. En þarna fóru menn öfugt að, öllu var sturtað saman í einn og sama hauginn. Það varð til þess að brjóta niður allan vilja íbúa höfuðborgarsvæðisins til þess að standa með opinberum yfirvöldum að því að flokka sorp og vinna að því að eyðing og förgun sé eins góð og kostur er. Það tengist kannski ekki beinlínis þessu frumvarpi en mér fannst ég þurfa að koma þessum sjónarmiðum að, ýta svolítið við hæstv. umhverfisráðherra og fá hann til að setja aðeins í brýrnar gagnvart sveitarfélögum og öðrum sem bera ábyrgð í þessum efnum.