135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[12:11]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í langa 1. umr. um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpið er sett fram í þeim tilgangi að leggja skyldur á framleiðendur og innflytjendur til að fjármagna, safna, meðhöndla og þar með talið að endurnýta raftækja- og rafeindaúrgang, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Þar segir einnig að markmið tilskipunarinnar sem þetta er byggt á sé að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.

Ég held að allir geti verið sammála um að þetta sé mikilvægt markmið og að sjálfsögðu mikið framfaraatriði. Mig langar aðeins að grípa boltann frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, 9. þm. Norðvest., þegar hann talaði um úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu. Ég get verið sammála honum um að menn þurfi að taka á þessum málum jafnvel enn frekar en gert hefur verið og að mjög margt sé ógert í því efni. Ég held að enginn velkist í vafa um að þar þurfa að verða framfarir og að við þurfum á endurskipulagningu að halda, enn meiri flokkun á sorpi o.s.frv., en það mun kosta mikla fjármuni. Ég held hins vegar að lýsing hans á vinnubrögðunum í Sorpu sé ekki dæmigerð fyrir það sem þar á sér stað. Einhver tilfelli og einhver dæmi kunna að vera um slíkt en ég held að það séu þá gömul dæmi og alger undantekningartilfelli. Ég þykist vita að vinnubrögðin þar eru með allt öðrum hætti í dag og þar er fullkomin flokkun á ferðinni, þannig að því sé til haga haldið.

Hv. þingmaður sagði að menn þyrftu kannski að vera svolítið grimmir við sveitarfélögin hvað þetta varðar. Við verðum að hafa í huga í því sambandi að þetta er mjög kostnaðarsamt verkefni. Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum tekið á sig mjög miklar skyldur og skuldbindingar í úrgangsmálum. Alþingi samþykkti í morgun beiðni frá mér og fleirum um skýrslu um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög og skuldbindingar sveitarfélaganna í EES-samningnum. Í þeirri skýrslu er m.a. óskað eftir yfirliti um þann kostnað í stórum dráttum sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir vegna skuldbindinga EES-samningsins. Það eru skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist, ekki sveitarfélögin. Þær skuldbindingar hafa verið settar yfir á sveitarfélögin, þau eiga að sjá um framkvæmdina en hafa aðeins að mjög litlu leyti fengið tekjur til að mæta þeim kostnaði sem því fylgir. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson verður að viðurkenna að þetta er staðreynd málsins. Um leið og ríkið setur skuldbindingar á sveitarfélögin verður það líka að gera sér grein fyrir því að það getur kostað fjármuni og það verður að sjálfsögðu að ræða það þá í þaula hvernig á að fjármagna þessi stóru og mikilvægu verkefni. Á að taka það af þeim tekjum sem sveitarfélögin hafa í dag? Geta þau það? Eða eiga að koma til nýir tekjustofnar? Eiga að koma millifærslur úr ríkissjóði? Þetta eru bara hlutir sem þarf að fara yfir og ræða opinskátt.

Mig langar stuttlega að segja að í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að nefndin sem samdi frumvarpið var skipuð af umhverfisráðherra í maí 2005. Það er ekki fyrr en í júní 2007, eða tveimur árum síðar, sem Samband ísl. sveitarfélaga tilnefnir fulltrúa í þessa nefnd. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá þeim fulltrúa var frumvarpið mikið til frágengið þegar sveitarfélögin fengu að koma að verkefninu. Ég veit ekki hversu mikil sátt er í rauninni við sveitarfélögin um ýmisleg efni hér. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í dag mun það gera verulegar athugasemdir við ýmis atriði í frumvarpinu, m.a. breytingarnar á lögunum um úrvinnslugjald, þ.e. samsetningu stjórnar Úrvinnslusjóðs. Hér er farin sú leið að láta stjórn Úrvinnslusjóðs taka við hlutverki stýrinefndarinnar eins og ég skil það, ekki öfugt að stýrinefndin verði stjórn Úrvinnslusjóðs. Það má kannski einu máli gilda hvernig það er túlkað. En eins og ég les þetta hér er gert ráð fyrir að stjórn Úrvinnslusjóðs taki hlutverk stýrinefndarinnar og gert er ráð fyrir því að inn í stjórn Úrvinnslusjóðs sé bætt einum fulltrúa frá Félagi stórkaupmanna og stjórnin verði þar af leiðandi sex manna.

Mér er kunnugt um það að sveitarfélögin hafa í mörg ár gert athugasemdir við það að hafa aðeins einn fulltrúa af fimm í stjórn Úrvinnslusjóðs til þessa vegna þess hvað hér er um stórt hagsmunamál og miklar skuldbindingar á hendur sveitarfélögunum að ræða. Þeim hefur þótt óeðlilegt að sveitarfélögin hafi haft svona litla hlutdeild í þessum sjóði en atvinnulífið svona mikla. Auðvitað er um að ræða miklar skuldbindingar á atvinnulífið líka. En við skulum ekki gleyma því að það eru sveitarfélögin sem eru ábyrg fyrir urðun og meðhöndlun úrgangs og þau bera ábyrgð í marga áratugi á þeim svæðum sem eru nýtt undir úrgang. Það hafa því verið gerðar athugasemdir og margar atlögur af hálfu sveitarfélaganna til þess að fá aukinn hlut í stjórn Úrvinnslusjóðs. Mér segir svo hugur að þau verði ekki kát með að nú sé fjölgað í stjórn Úrvinnslusjóðs með fulltrúa frá atvinnulífinu þannig að hlutdeild þeirra verði rýrari, eða einn fulltrúi af sex í staðinn fyrir einn af fimm.

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, við 1. umr. Ég mun fylgja þessu sjónarmiði eftir í hv. umhverfisnefnd sem fær málið til umfjöllunar og óska eftir að farið verði rækilega yfir þetta mál. Það þarf líka að fara yfir það viðhorf sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi skiptinguna á milli stýrinefndarinnar og stjórnar Úrvinnslusjóðs, hvort rétt sé að slá þessu saman eða ekki, að farið verði yfir þær röksemdir sem þar liggja að baki. Mér sýnist að ráðuneytið hafi gert þessa breytingu eftir að nefndin skilaði af sér. Mér finnst líka fullkomin ástæða til að fara betur yfir fyrirkomulag og stjórnun Úrvinnslusjóðs og ræða samsetningu hans, m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem komu fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og þeirra sjónarmiða sem ég hef haldið hér fram varðandi sveitarfélögin.