135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[12:19]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum góða og upplýsandi umræðu um það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég er á því að innleiðing framleiðendaábyrgðar í þessum efnum sé bæði eðlileg og nauðsynleg og góð leið til þess að leysa þessi mál af því að við þurfum að leysa þau. Markmiðin eru í sjálfu sér alveg skýr en leiðirnar eru ýmsar og framleiðendaábyrgð er eðlileg ráðstöfun til að eiga við þessi viðamiklu og oft flóknu mál sem úrgangsmálin eru. Við vitum að í samfélagi eins og okkar fellur til óheyrilegt magn af raftækja- og rafeindatækjaúrgangi. Eftir því sem efnahagsumsvif samfélaga eru meiri því meiri verður úrgangurinn og eftir því sem ríkidæmið er meira því meiri verður raftækja- og rafeindaúrgangurinn eins og menn þekkja. Það er því mjög mikilvægt að koma úrvinnslumálum í þennan farveg. Ég tel einnig mjög mikilvægt að innleiða framleiðendaábyrgð með þessum hætti og að atvinnulífið, framleiðendur, innflytjendur í flestum tilfellum hér á landi, axli ábyrgð. Það eru þeir sem eru í raun að axla meginhluta ábyrgðarinnar hér. Þó að auðvitað sé það rétt að að skyldur séu á sveitarfélögum er með þessari útfærslu verið í raun að færa umsýsluna og stýringuna á þessu kerfi til atvinnulífsins. Ég held að það sé góð ráðstöfun að þeir sjái um þetta. Kerfið þarf auðvitað að virka vel og eins og hv. þingmenn fengu að hlýða hér á í framsöguræðu ráðherra þá er þetta nú ekki alveg einfalt kerfi og ekki alveg einfalt mál. En skilakerfið byggir á því að allir séu skráðir og skyldaðir til að taka þátt í raun. Hér hafa menn ekkert val. En það er auðvitað grundvöllur þess að svona kerfi virki. Þess vegna meðal annars tel ég framleiðendaábyrgðina mjög mikilvæga því hún kallar atvinnulífið — í þessu tilfelli innflytjendur og einhverja framleiðendur — til ábyrgðar í þessum málum og þannig á það að vera.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir spurði hvort þetta yrði allt saman bara brætt í einn klump. Það stendur svo sannarlega ekki til. Það er efnavörulöggjöfin sem kveður á um hvernig fara skuli með efnin sem vissulega eru í þessum tækjum. Þetta eru margvísleg efni, margvíslegar sýrur og annað slíkt sem fellur til. Í þessari löggjöf er ekki kveðið á um það en fyrir því er hins vegar séð í efnavörulöggjöfinni þannig að það stendur ekki annað til en að meðhöndla það eins vel og unnt er og tæknin leyfir okkur. Ég fullvissa hv. þingmann um það, hæstv. forseti.

Framleiðendaábyrgðin, eins og ég kom inn á í upphafi máls míns, er bara samkvæmt orðanna hljóðan framleiðendaábyrgð. Það kemur einnig inn á það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi hér vegna sveitarfélaganna. Ég vil benda á það, hæstv. forseti, að það var eftir að sú sem hér stendur kom í umhverfisráðuneytið að sveitarfélögin fóru í þessa vinnu, reyndar á lokasprettinum, ég geri mér alveg grein fyrir því og ég er mjög vel meðvituð um athugasemdir sveitarfélaganna bæði um þessi mál og einnig vegna samsetningar Úrvinnslusjóðs. Þó að við séum ekki beinlínis að ræða þá stjórn hér og nú vil ég segja að það varð niðurstaða okkar að leggja til í þessu frumvarpi að breyta samsetningu Úrvinnslusjóðsins, ekki búa til nýja stjórn og nýtt apparat heldur reyna að nýta það kerfi sem við höfum og skilja skýrt á milli verkefnanna. Ég veit að hv. þingmenn munu fara vandlega yfir það í umhverfisnefndinni enda er það alveg eðlilegt og það þarf auðvitað að vera skýrt þannig að hv. þingmenn séu sannfærðir um að þetta virki. Ég tel að þetta sé heillavænlegra en að búa til nýja stjórnsýslueiningu, ef svo skyldi segja, í þessum efnum og að það eigi alveg að vera hægt að skilja skýrt á milli þessara verkefna. Það er þá alveg burt séð frá spurningunni um þátttöku sveitarfélaganna í öðrum þáttum þess starfs sem við erum hér að ræða þannig að þetta er auðvitað nokkuð sem þarf að ræða og fara yfir í nefndinni og ég veit að hún mun gera það.

Ég get líka tekið undir ábendingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um umræðuna um verkefni ríkis og sveitarfélaga og hina eilífu umræðu um tekjuskiptinguna og verkefnaskiptinguna. Þetta er auðvitað hluti af þeirri umræðu og eitt af því sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér og við erum að huga að í ráðuneyti umhverfismála er að reyna að skýra þessa verkefnaskiptingu og skilgreina betur þá þjónustu sem veita á almenningi frá eiginlega sjónarhóli neytandans í sorphirðumálum á Íslandi og gera það öðruvísi en gert hefur verið hingað til. Það þarf kannski að hugsa það svolítið upp á nýtt en ég held að það sé mikið til unnið að reyna að nálgast sorphirðumálin og verkefnin sem þeim fylgja með nýjum hætti og nálgast þau frá sjónarhóli neytandans. Það er vissulega verið að gera hér. Hér er verið að setja framleiðendaábyrgðina þannig fram að tekið sé við rafeinda- og raftækjaúrgangi á söfnunarstöðum sem til eru. Það sem sveitarfélögin þurfa að leggja til er pláss fyrir gám undir þennan úrgang á sínum söfnunarstöðvum. Annað er á ábyrgð framleiðendanna. Það er því verið að mæta neytendum þar sem þeir koma með svona viðamikinn úrgang eins og reyndar er gert víða í dag.

Það er að sjálfsögðu þannig að kostnaðurinn við alla vöru sem framleidd er lendir á endanum á neytandanum. Þannig virkar það í markaðssamfélaginu. Það sem skiptir mestu máli hér er að umhverfiskostnaður við framleiðslu, notkun og förgun og/eða endurvinnslu vöru er tekinn með í reikninginn. Um það snýst þetta, þ.e. að taka umhverfiskostnaðinn með í reikninginn. Við fikrum okkur áfram í þeim efnum í þessu samfélagi eins og öðru þannig að við búum ekki við þann markaðsbrest, eins og hagfræðingar mundu kalla það, að kostnaðurinn við að framleiða vörur, hverjar sem þær eru, nýta þær og farga þeim eða endurvinna þær, sé ekki með í reikningnum. Það á í raun að vera hluti af verði vörunnar og það verður það að sjálfsögðu. En á endanum er það neytandinn sem hefur valið um hvort hann kaupir vöruna eða ekki. Hann þarf alla vega þá að vita að hann er að borga allan kostnaðinn við hana en ekki einhvern hluta og að einhver annar kostnaður vegna vörunnar falli þá á samfélagið, þann sem ekki valdi að kaupa vöruna, án þess að ég fari nú lengra út í þá sálma í þessari umræðu. Þess vegna er kostnaðarmat frumvarpsins eins og raun ber vitni. Það er erfitt að leggja heildarmat á það. Þetta er framleiðeindaábyrgð. Kostnaður mun falla til á framleiðendur og svo á neytendur. Þannig er það og það verður væntanlega flókinn útreikningur þó að kannski sé hægt að komast nær honum en hér er gert. En sú er nú skýringin á því.

Vegna þess annars sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi í sinni ræðu þá er það fortakslaus krafa í þessu frumvarpi og eins og lagt er til að það séu gerðar sömu kröfur um allt land, að ekki sé verið að gera aðrar kröfur á suðvesturhorninu en gert er einhvers staðar annars staðar hvort sem það er á norðvesturhorninu eða annars staðar á Íslandi. Það verður að vera þannig.

Svo má ég til hér rétt í lokin að bregðast við orðum hv. þingmanns vegna lífseigrar flökkusögu í samfélaginu um urðun sorps. Hún er einhvern veginn á þá leið að almenningur flokkar og flokkar og skilar í söfnunarstöðvar. Svo er það tekið og keyrt upp á Álfsnes og öllu hent í sama hauginn. Þannig er það ekki. En ég hef orðið vör við að þessi saga lifir góðu lífi og að fólk, margir vel upplýstir borgarar halda að þetta sé svona, sem það er ekki. Flokkunin gengur alveg til enda og hún virkar og hún er gerð að bestu manna yfirsýn og vel er vandað til verka. Vandinn er hins vegar sá að við erum að urða allt of mikið af sorpi. Það liggur alveg fyrir og samkvæmt þeim markmiðum sem við þurfum að ná um að minnka magn urðunar, úrgangs sem fer til urðunar, þá erum við Íslendingar orðnir svolítið langt á eftir í þeim efnum ef við bara miðum við þau markmið sem Evrópusambandið setur og við þurfum að yfirtaka í gegnum EES-samninginn. Stóra verkefnið er því, hvort sem um er að ræða rafeindatæki eða raftæki eða annan úrgang frá fólki, heimilum og fyrirtækjum hér á landi, stóra verkefnið er að minnka magnið af úrgangi, sorpi sem frá okkur fer, endurvinna meira, minnka magnið og kannski þegar allt er skoðað að minnka neysluna í samræmi við þau markmið sem við setjum okkur í umhverfismálum. Um það snýst þetta.

Það er mjög gleðilegt að fylgjast með því að bæði sveitarfélög og ekki síst almenningur um allt land er mjög svo að taka við sér í þessum málum. Sveitarfélög eru farin að finna nýjar leiðir til þess að þjónusta íbúana og fólk er farið að gera miklu meiri kröfur um þessa þjónustu — sem vissulega er almannaþjónusta — en það gerði áður. Ein leið er til dæmis sú sem Stykkishólmsbær hefur farið. Það er alveg ný tilraun á Íslandi. Þar gerði sveitarfélagið samning um tiltekna alþjónustu við tiltekið fyrirtæki um sorphirðu og hvert einasta heimili í Stykkishólmi verður með þrjár tunnur, eina venjulega, eina græna og eina til þess að setja flokkunarpokana í. Þetta er mjög merkileg tilraun og eftirbreytniverð fyrir önnur sveitarfélög af því að það er hægt að gera þetta svona. Þetta er sú krafa, hygg ég, sem verður æ ríkari meðal almennings, meðal kjósenda í sveitarfélögum og annars staðar, þ.e. um að þessu sé sinnt betur og nær heimilunum, helst við heimilin, og sinnt betur en til þessa hefur verið gert.

Hæstv. forseti. Þá er ég kannski komin út í aðra sálma en þá sem varða beinlínis það frumvarp sem hér er til umræðu. En ég vil aftur þakka hv. þingmönnum fyrir gagnleg innlegg í umræðuna og þykist vita að í hv. umhverfisnefnd verði farið vandlega yfir þetta frumvarp eins og önnur.