135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

rannsóknir í þágu atvinnuveganna og stjórn fiskveiða.

55. mál
[12:49]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka til máls um þetta frumvarp hv. þingmanna Kristins H. Gunnarssonar og Grétars Mars Jónssonar. Eins og fram kemur er verið að flytja frumvarpið í sjötta sinn þó að nú sé það í eilítið breyttri mynd.

Mér þykir sú hugmynd sem hér er lögð til allrar athygli verð og gott innlegg í umræðuna um verkaskiptingu í ráðuneytum og hvernig hún eigi að vera. Þó verð ég að segja og upplýsa hv. flutningsmenn um að það stendur ekki til samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ganga svona langt, ef svo má að orði komast. Það hafa orðið breytingar í Stjórnarráðinu, núna um áramótin voru verkefni flutt og að mínu viti hafa orðið margar eðlilegar og mjög tímabærar breytingar, t.d. eru Landgræðslan og Skógræktin komin til okkar í umhverfisráðuneytið, sem hefði mátt gerast miklu fyrr, Vatnamælingarnar munu líka sameinast Veðurstofunni og úr því verður ein stofnun sem verður stofnuð síðar á þessu ári, eigi síðar en 1. janúar 2009. Allt eru þetta eðlilegar og tímabærar breytingar.

Ég hygg að kjarni þessa máls sé auðlindapólitíkin, ef þannig má að orði komast, þ.e. að þróunin er í þá átt og sú krafa fær æ meiri hljómgrunn, eðlilega, að til sé eitthvað sem nefna mætti auðlindaráðuneyti, sem væri þá ráðuneyti umhverfismála og rannsókna, eins og svo sem er verið að benda á í þessu frumvarpi, á meðan framkvæmd og eftirlit með ákveðinni stjórnun og stefnu, hvort sem það er fiskveiðistjórn eða leyfisveitingar vegna orkunýtingar séu annars staðar og þá í atvinnuvegaráðuneytum. Umræðan er auðvitað um hinar takmörkuðu, sameiginlegu náttúruauðlindir okkar, sem eru margvíslegar, og rannsóknir og nýtingu á þeim. Það hefur einnig verið í umræðunni og var í umræðunni í haust í sambandi við verkefnaflutninginn í Stjórnarráðinu að orkurannsóknir ættu allt eins heima í ráðuneyti umhverfismála eins og í iðnaðarráðuneyti. Það er auðvitað umræða af sama meiði.

Því kem ég hér upp til að benda á þetta og hvetja til umræðu um þessi mál. Ég hygg að við stefnum í þessa átt en það getur tekið sinn tíma eins og reynslan sýnir, að flytja verkefni og breyta stofnanauppbyggingu innan Stjórnarráðsins og annars staðar. Sú hugsun sem hér er sett fram er allrar athygli verð og ég hygg að það sé nauðsynlegt að taka þessa umræðu bæði hér á hinu háa Alþingi og einnig verður það væntanlega gert í hv. umhverfisnefnd og ég vænti þess að sú umræða leiði okkur lengra fram á veginn í þessum efnum.