135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

rannsóknir í þágu atvinnuveganna og stjórn fiskveiða.

55. mál
[12:53]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góðar undirtektir við efni frumvarpsins. Út af fyrir sig kemur mér ekki á óvart að það liggur fyrir í stjórnarsáttmálanum hversu langt skuli ganga í þessa átt á kjörtímabilinu og það er ekkert við það að athuga þó að bent sé á það að þar er takmörkun að þessu sinni. Það var þó líka áfangi í þessum stjórnarsáttmála frá því sem var að í honum voru breytingar í rétta átt og þetta gengur svona til eins og hæstv. ráðherra benti á að hlutirnir vinnast með tímanum. Það eru margir sem tala fyrir þessum breyttu sjónarmiðum, það er ekki bara hér á Alþingi eða með frumvarpsflutningi, það eru auðvitað fleiri menn og konur sem hafa haft þessi sjónarmið og þess vegna hafa þau náð þó þetta miklu fram á ekki lengri tíma en einum áratug, sem í sjálfu sér er býsna góður árangur.

Ég tek alveg undir það hjá hæstv. ráðherra að auðlindaráðuneyti er nokkuð sem menn eiga að fara að horfa á í þessu samhengi, ekki taka bara sjávarútvegsauðlindir eða landið heldur líka orkuna og aðrar þær auðlindir og skipa ákveðnum málum varðandi þá hluti hjá því ráðuneyti sem hefur þessi sjónarmið að grundvelli í starfi sínu. Ég held að menn hljóti að stefna að því eins og með vatnsorkuna og reyndar má segja að að sumu leyti hafi það gerst með umhverfismatinu þar sem umhverfisráðherra hefur fengið ákveðið verkefni eða vald í þeim efnum. Það hefur að vísu dregið úr því eftir að umhverfismatið hætti að verða bindandi en engu að síður var það viðurkenning á því að það varð að fá einhvern aðila til að leggja mat á framkvæmdir út frá öðrum hagsmunum en beinum atvinnuvegahagsmunum og ég held að menn eigi að halda því á lofti. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að þessi viðhorf eru að breytast í þessa átt eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og umhverfissjónarmiðin eru sjónarmið morgundagsins og auðlindaráðuneytið getur þess vegna verið ráðuneyti morgundagsins í íslenskum stjórnmálum.

Ég vil svo að lokum óska ráðherranum og öðrum íslenskum konum til hamingju með daginn, í dag eru hundrað ár síðan kvennalisti í Reykjavík hlaut glæsilega kosningu í borgarstjórnarkosningum, öllum konum og öllum körlum líka.