135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

friðlýsing Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

59. mál
[13:46]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar hv. þm. Jóns Bjarnasonar til mín er mér ljúft og skylt að upplýsa hv. þingmann um að stefna Samfylkingarinnar um hið fagra Ísland stendur. Ég stend við hana. Ég hef ekki breytt um skoðun í því máli, öðru nær. Ég deili því með hv. þingmanni að sjá þurfi til þess að Jökulsárnar í Skagafirði verði ekki teknar til virkjananota.

Eins og hv. þingmaður veit eru þessi mál til umfjöllunar og umræðu í verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu og verndun náttúrusvæða. Þeirri vinnu lýkur árið 2009, á ég von á og þá lýkur loksins þeirri miklu vinnu. Þar með höfum við í höndum áætlun sem hægt er að fjalla um og taka afstöðu til. Ég á von á að sú vinna komi okkur á þann stað að ná niðurstöðu og sátt um þessi mál hér á landi. Ég bind miklar vonir við að svo verði og að frá því megi ganga fyrir lok þessa kjörtímabils.