135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[13:58]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um Loftslagsráð. Hún er flutt af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og er hér flutt í annað sinn, en hún var lögð hér fram í fyrsta skipti á síðasta vetri. Tillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að setja á fót Loftslagsráð sem hafi eftirtalin verkefni:

Í fyrsta lagi að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og annarra efna sem haft geta skaðleg áhrif á andrúmsloft og loftslagsþróun.

Í öðru lagi að meta líkleg áhrif loftslagsbreytinga á þjóðarhag og þjóðaröryggi.

Í þriðja lagi að vera til ráðgjafar um rannsóknaþörf og viðbrögð á sviðum sem mestu varða, m.a. um mannvirkjagerð, skipulag byggðar, samgöngur, atvinnuhætti og þróun lífríkis.

Í fjórða lagi að miðla fræðslu og rækja alþjóðatengsl sem orðið geti viðfangsefnum ráðsins til framdráttar.

Í fimmta lagi að beina að eigin frumkvæði tilmælum til opinberra aðila og annarra eftir því sem tilefni þykja til.

Í Loftslagsráði er lagt til að eigi sæti, samkvæmt tilnefningu, fulltrúar þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, ráðuneyta, opinberra stofnana, samtaka á vinnumarkaði og umhverfisverndar- og neytendasamtaka. Umhverfisráðherra á samkvæmt tillögunni að skipa formann ráðsins og sömuleiðis að veita því nauðsynlega aðstöðu og gert er ráð fyrir samkvæmt tillögunni að kostnaður við störf ráðsins verði greiddur úr ríkissjóði.

Síðan er niðurlag tillögu textans með þeim hætti að gert sé ráð fyrir að eigi sjaldnar en annað hvert ár skili Loftslagsráð skýrslu um störf sín sem verði kynnt Alþingi og að skipan og starfshættir Loftslagsráðs skulu endurmetin ekki síðar en að fimm árum liðnum.

Hæstv. forseti. Tillaga þessi er í samræmi við þau sjónarmið sem segja má að hafi náð eyrum heimsbyggðarinnar og eru nú á dagskrá allra ríkisstjórna meira eða minna um veröld víða. Við þekkjum það af umræðunni að loftslagsvandamálin og hlýnun lofthjúps jarðar er eitt brýnasta vandamál sem þjóðir heims glíma við. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið forustu í vinnunni við að takast á við hlýnunina og snúa af þeirri þróun sem við höfum verið á. Upphaf að þeirri vinnu má rekja allt aftur til ársins 1972 þegar haldin var umhverfisverndarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi og síðan hefur hver fundurinn rekið annan og nú starfar gríðarlega mikil vísindanefnd fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að grípa til verulegra róttækra aðgerða til þess að koma í veg fyrir frekari hlýnun lofthjúpsins. Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að hlýnunin megi ekki fara yfir 2°C frá því sem var í upphafi iðnbyltingar og hún segir jafnframt að til þess að ná því eða halda í við hlýnunina þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnríkjunum um a.m.k. 25–40% fyrir árið 2020.

Síðan þessi tillaga var lögð fram hérna síðasta vetur hefur auðvitað ýmislegt gerst, hæstv. forseti, m.a. það að haldið var aðildarþing loftslagssamningsins í Balí í desember sl. og til þessa þings fóru fulltrúar ríkisstjórnar Íslands. Loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar í Balí var kynnt, raunar seinna en mér hefði fundist þörf á, og sú stefna fékk ekki nægilega umræðu að mínu mati hvorki hér í sölum Alþingis né jafnvel úti í samfélaginu. Það má segja að ríkisstjórnin hafi ákveðið að til viðbótar við þá stefnumörkun sem búið var að tala fyrir hér á síðasta vetri sé ríkisstjórnin sammála um að það þurfi að tryggja að hlýnunin verði ekki meiri en 2°C miðað við upphaf iðnbyltingar, það beri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25–40% fyrir 2020 og það sé nauðsynlegt að allar þjóðir heims séu með. Þá vill ríkisstjórnin að losun kolefnis verði verðlögð eða ýmsum aðferðum sé beitt sem rætt hefur verið um á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem gerður var í Ríó 1992.

Meðal þess sem ríkisstjórnin vill gera er að tekið verði tillit til sérstöðu landa, þar á meðal okkar lands auðvitað og efnahagslegrar stöðu okkar. Í þeim orðum felast að mínu mati yfirlýsingar um að undanþáguákvæði á borð við Kyoto-ákvæðið alræmda, vil ég segja, undanþáguákvæðið sem kallað hefur verið „hið íslenska ákvæði“ verði áfram við lýði. Ríkisstjórnin hefur lagt til að farin verði leið geirakvóta eða sú nálgun verði viðhöfð að ákveðnir atvinnuvegir geti haft sjálfstæða kvóta sem séu þá teknir út úr bókhaldi sinna landa. Þetta er hugmynd sem ég er mjög mótfallin. Hún kemur frá Bandaríkjunum og er þannig vaxin að innan bandaríska stjórnkerfisins er stofnun sem heitir upp á ensku Center for Clean Air Policy sem hefur mælt fyrir þessari stefnu. Rætur hennar eru trúlega raktar til samtaka álframleiðenda sem hafa höfuðstöðvar í London, International Aluminium Institute. Það eru sem sagt álframleiðendur og viðskiptaheimurinn sem hafa gengið fram fyrir skjöldu og þróað þá hugmynd sem nú gengur undir heitinu geiranálgun. Ég hef ekki heyrt hæstv. umhverfisráðherra úttala sig beinlínis um það hvort hún sé hlynnt því eða ekki en hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst sig hlynntan því að það sé farin sú leið.

Þá telur ríkisstjórnin að hægt sé að fara í aðgerðir á borð við það að skógur og votlendi verði metin til bindingar, rannsóknir verði gerðar á föngun og förgun kolefnis og sömuleiðis að Ísland taki þátt í því að helminga eyðingu regnskóganna. Allt er þetta nú gott og gilt, hæstv. forseti, en ekkert af þessu kemur þó í veg fyrir það að hugmynd sú sem hér er mælt fyrir um Loftslagsráð sé góð og gild og brýn til þess að virkja sem flesta í þeirri vinnu sem fram undan er.

Það er ljóst að ríkisstjórnin ein og sér, þar sem uppi eru mjög ólík sjónarmið, yrði betur í stakk búin til þess að ná almennri sátt í samfélaginu ef ráð af þessu tagi væri til staðar. Ég teldi að hæstv. umhverfisráðherra hefði í ráði af þessu tagi verulega öflugan stuðningshóp við þau sjónarmið sem mér heyrist hún tala fyrir og eins og ég hef getið áður um í þessum ræðustóli þá er þar nokkur munur á hvernig hæstv. umhverfisráðherra talar annars vegar og svo hæstv. forsætisráðherra og jafnvel aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. iðnaðarráðherra er svo einhvers staðar á milli og slær eins og pendúll í og úr. (Gripið fram í.) Hann er réttum megin, er hér hrópað. En það er spurning um það hvenær pendúllinn er réttum megin og hvenær ekki, ég hef horft og hlustað á hann slá í báðar áttir.

Ég álít að loftslagsráð af þessu tagi gæti verið öflugur bandamaður fyrir þá einstaklinga, hvort sem þeir sitja í ríkisstjórn, í rannsóknarstofnunum samfélagsins eða stjórnsýslustofnunum, sem vilja að hér sé gætt ýtrustu varkárni og Íslendingar verði með í þeirri vegferð sem mannkyn allt þarf að fara í. Nokkrar þjóðir eru lagðar af stað og hafa gengið fram fyrir skjöldu og standa sig vel, ég nefni Noreg og það má nefna fleiri þjóðir innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur sem heild ákveðinn skilning á málinu og hefur sett sér stefnu sem er metnaðarfull en engu að síður sjá menn strax að það er afar erfitt að fylgja þeirri stefnu. Þegar um er að ræða stefnu sem þarf að fara í er það auðvitað nauðsynlegt að búa til samstöðu í samfélaginu um aðgerðir. Sú samstaða er ekki til í samfélagi okkar. Hér eru enn gríðarlega ólík sjónarmið og það er mjög langt í land með að salta þau.

Ég hvet því hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. ríkisstjórn til þess að taka þessa tillögu til þingsályktunar til skoðunar og líta á hana sem innlegg í lausn á þeim vanda sem við eigum við að glíma og þeim vanda sem við höfum hér heima fyrir, þ.e. að hér þurfi að ná sátt um sameiginlega leið. Ég þykist vita að í þeim ráðherrahóp sem hæstv. umhverfisráðherra hefur skipað til að taka á þessum málum fyrir okkar hönd séu ólík sjónarmið, jafnvel hver höndin upp á móti annarri án þess að ég hafi fengið að kíkja þar inn fyrir dyr, en ég tel að allir þeir fulltrúar sem gert er ráð fyrir samkvæmt tillögunni að ættu sæti í Loftslagsráði mundu verða sterkir bandamenn í baráttunni.

Ég bendi líka á, hæstv. forseti, að tillögunni fylgja tvö fylgiskjöl, annars vegar mjög athyglisverð grein sem byggir á erindi sem flutt var á orkuþingi Samorku 12. og 13. október 2006. Það er Birna Sigrún Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sem á heiðurinn af því erindi og þeirri samantekt sem þar er, en þar er fjallað í myndum og máli um útstreymi, þar er birt útstreymisspá og fjallað á fremur tæknilegan hátt um það hvernig þróunin hefur orðið hér á landi, hvernig hún yrði með þeim stóriðjuáformum sem eru enn í pípunum og hvernig hún yrði án stóriðjuáformanna. Hitt fylgiskjalið er grein eftir Hjörleif Guttormsson sem fjallar um ósjálfbæran hagvöxt og loftslagsbreytingar og þar er fjallað um málasviðið út frá efnahagslegum forsendum ekki síður en umhverfislegum, fjallað um jöfnuð á forsendu samstöðu, ósjálfbæran efnahagsvöxt og viðbrögðin í sögulegu ljósi og þá ört vaxandi mengun sem við er að glíma.

Hæstv. forseti. Lífríki jarðar er í verulegri hættu. Við erum aðilar að fleiri samningum en loftslagssamningnum, ég nefni samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika sem er í mínum huga grunnurinn undir þá stefnu sem þarf að keyra bæði í atvinnumálum og náttúruverndarmálum. Við þurfum að átta okkur á því hversu samtvinnaðar ákvarðanir þarf að taka í samfélaginu. Ég nefni atvinnumálin sérstaklega vegna þess að í pípunum eru gríðarlega miklar framkvæmdir ef þær hugmyndir ná allar fram að ganga. Þá er ég ekki bara að tala um hugmyndir um álver heldur líka olíuhreinsistöð á Vestfjörðum sem nefnd var hér í ræðum fyrr í dag, og ég vil líka nefna olíuleit á Drekasvæðinu sem ég hef haft áhyggjur af og lýsti sjónarmiðum mínum hér úr ræðustól þegar fjallað var um fjárlagatillögur ríkisstjórnarinnar.

Eins og menn vita eru gríðarlegir fjármunir eyrnamerktir á næsta ári og næstu árum í olíuleit á Drekasvæðinu án þess að um það hafi farið fram nokkur umræða eða umfjöllun, hvorki hér í þingsal né heldur sýnileg úti í samfélaginu, neitt svo heitið geti. Atvinnustefna og uppbygging atvinnuveganna þarf að haldast í hendur við þá umræðu sem fram fer í náttúruverndarmálum og þess vegna nefni ég samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika vegna þess að atvinnuuppbygging af því tagi sem ég hef nefnt hér, olíuvinnsla, olíuhreinsun, stóriðja, hvort sem það er álframleiðsla eða annar orkufrekur iðnaður, allt setur þetta náttúru okkar og þau skilyrði sem lífríki Íslands eru búin í uppnám. Hér verður að stemma á að ósi og sjá til þess að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé viðhöfð í stjórnsýslunni allri og í ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar. Þar þarf að samþætta umhverfismál öllum ákvörðunum, hvort sem það eru efnahagslegar ákvarðanir eða atvinnulegs eðlis. Þetta helst allt í hendur, félagsleg áhrif stórvirkjana eða stóriðjunnar eru kunn, þau þarf að kortleggja á sama hátt og áhrifin á umhverfið af stóriðjunni og stórvirkjunum og þá eru efnahagslegu áhrifin ekki undanskilin. Þessir þrír þættir þurfa að fléttast saman í eina heild og við allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þarf að skoða samspil þessara þriggja þátta.

Ég tel að sú tillaga sem ég hér hef talað fyrir um Loftslagsráð sé liður í þeirri viðleitni að taka meðvitaðar ákvarðanir um umhverfismál, átta sig á því hversu víðfeðm áhrifin af ákvörðunum okkar eru, viðurkenna umhverfisþáttinn og tryggja að hann sé jafnrétthár öðrum þáttum við ákvarðanatöku.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið verði látið ganga til 2. umr. og hv. umhverfisnefndar.