135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:26]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka þessari umræðu með því að þakka góðar undirtektir sem tillagan um loftslagsráð hefur fengið hjá hæstv. umhverfisráðherra og hv. þm. Merði Árnasyni. Ég vona að þau góðu orð sem þau höfðu um tillöguna nái inn í umhverfisnefnd og að í alvöru verði hægt að fjalla um málið sem einhvern möguleika, þ.e. að við eygjum von eða möguleika á að hægt verði að afgreiða tillöguna frá nefndinni og inn í þingsali. Ég treysti því að við höfum bandamenn, a.m.k. innan Samfylkingarinnar, með þessari hugmynd okkar. Ég vona að þess sjái stað í nefndinni þegar þar verður farið að vinna málið.

Ég er sannfærð um að sú hugmynd sem hér liggur að baki, sem ég tel nokkuð vel útfærða og unna, geti styrkt mjög þau sjónarmið og hugmyndir sem hæstv. umhverfisráðherra hefur talað fyrir og ég veit, það þarf ekki að ganga að því gruflandi, að hún þarf að berjast fyrir innan ríkisstjórnarinnar. Þess vegna trúi ég því og treysti að stuðningur þeirra sem hér hafa talað skili málinu aftur inn í þingsali og við eigum kannski eftir að sjá Loftslagsráð í einhverri útfærslu, þess vegna strax á næsta vori.

Að öðru leyti langaði mig að taka undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði. Þetta er ráðgjafarráð en ekki spurning um ákvarðanatöku. Hugmyndin gerir ráð fyrir því að víkka út vinnuna, að upplýsingar verði teknar sem víðast að og mjög margir komi að málum. Auðvitað er hæstv. ráðherra búinn að útfæra ákveðna hugmynd og hefur reyndar komið fyrir í þremur nefndum, fjórum kannski, sem ég teldi að væri betur komið eins og hér er talað fyrir. Þetta er fyrst og fremst, eins og hv. þm. Mörður Árnason nefndi, umræðu- og samráðsvettvangur þar sem upplýsingar eru teknar saman og fylgst með því sem unnið hefur verið í þessum efnum.

Varðandi stöðu Íslands í samanburði þjóðanna þá kemur í ljós, þegar skoðuð er skýrsla sem verið hefur til umfjöllunar á þessum vettvangi, þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna 2007–2008, að loftslagsbreytingarnar ráði úrslitum um þróun lífskjara á 21. öldinni í veröldinni. Þar kemur fram að verði ekki brugðist við þeirri áskorun muni það valda stöðnun og síðan afturför í alþjóðlegum aðgerðum til að draga úr fátækt. Einnig kemur fram að fátækustu ríkin og þjóðir þeirra munu hljóta fyrstu og skaðlegustu áföllin, jafnvel þótt þau beri minnsta ábyrgð á vandanum. Í skýrslunni segir að til framtíðar muni engin ríki, hversu efnuð eða valdamikil sem þau eru, vera ónæm fyrir afleiðingum loftslagsbreytinganna.

Þegar Sameinuðu þjóðirnar tala jafnskýrt og þær gera í þróunarskýrslunni hljóta ríkisstjórnir að vakna til lífsins. Þeir sem hafa verið andsnúir þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hljóta á endanum að hugsa sinn gang. Þegar við lítum á töfluna sem skýrslan hefur að geyma yfir losun þjóðríkja heimsins þá sjáum við, þegar bornar eru saman tölur sem þar koma fram, þ.e. tonnafjöldi, losun koltvísýrings í tonnum á íbúa í löndum heims, að Íslendingar standa mjög illa að vígi. Með síðustu aðgerðum okkar, þ.e. opnun álversins á Reyðarfirði, er losun okkar orðin 17 tonn af gróðurhúsalofttegundum á ári á mann. Þegar rennt er yfir töfluna, hér eru að vísu tölur frá 2004, sjáum við að Bandaríkin losa hátt í 21 tonn, Ástralía 16 tonn rúm, Kanada um 20 tonn og þetta eru þjóðirnar, sem við berum okkur saman við, sem losa mest.

Íslendingar eru komnir undir ákveðið þak í þessum efnum. Lengra getum við ekki gengið. Á endanum, það er mín bjargfasta trú og skoðun, hæstv. forseti, tel ég að einmitt þessi tala skipti sköpum, þ.e. losun á íbúa. Það verður eini marktæki samanburðurinn og krafan verður sú að þar stöndum við sem jafnast að vígi. Það verður ekki hægt áfram að heimila olíuframleiðsluríkjunum að losa eins og þær gerðu samkvæmt töflunni 2004. Sameinuðu arabísku furstadæmin með 34 tonn eða Kúveit með 37 tonn á mann. Jöfnuður að þessu leyti verður á einhvern hátt að nást. Þá verða Íslendingar að átta sig á því að stefnan er að losunin fari ekki fram úr 10 tonnum á mann helst 8 tonn, að það sé stefnan sem við þurfum að ná fyrir 2050. Þá er verk að vinna. Við þurfum að fara í aðgerðir sem eiga eftir að verða sársaukafullar. Þær þurfa að vera róttækar. Þær verða sársaukafullar fyrir mjög marga.

Við verðum að leggjast á eitt, atvinnulífið og stjórnmálamenn. Vísindamenn og þeir sem búa yfir kunnáttu verða líka sóttir að þessu borði. Hæstv. forseti, ég tel að það sé hugmyndafræðin að baki þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar. Svo treysti ég því og vona að Íslendingar mæti til Kaupmannahafnar með góða hluti í farteskinu, jákvæða stefnu sem verði til fyrirmyndar, stefnu sem við getum öll verið stolt af. Ég treysti því og vona að við náum alvöruárangri í samningunum í Kaupmannahöfn 2009.