135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:38]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður verður jafnánægður með seinni hluta andsvars míns. Eins og ég sagði áðan styð ég þau sjónarmið sem hæstv. umhverfisráðherra hefur látið frá sér fara í útgefnum bæklingi um stefnumál sín í loftslagsbreytingum. Þar er ekki fjallað um geiranálgun eða geirakvóta sem ríkisstjórnin er hins vegar að reyna að koma hér áfram. Þar er heldur ekkert fjallað um björgun regnskóganna eða sveigjanleikaákvæðin, að áfram skuli taka tillit til sérstöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi í þessum efnum. Það segir ekkert um áframhaldandi undanþágur frá meginmarkmiðum loftslagssamningsins.

Það eru ákveðnir þættir, ég taldi upp ein fimm eða sex atriði sem stefna ríkisstjórnarinnar kveður á um sem ég er ósátt við. Ég þykist vita að í hjarta sínu sé umhverfisráðherra líka með böggum hildar yfir þeim málamiðlunum sem hún hefur þurft að gera í ríkisstjórninni. Ég treysti því hins vegar að hún sé áfram sama sinnis og hún var á síðasta þingi áður en hún varð umhverfisráðherra og komi áfram til með að berjast fyrir þeim sjónarmiðum í ríkisstjórninni sem andófsmaður í ríkisstjórninni sem hún er búin að lýsa yfir að hún sé og ætli að vera. Þannig styð ég hana, en ég styð ekki það sem komið hefur frá ríkisstjórninni nema að litlu leyti, þ.e. fjögur eða fimm atriði af tíu sem talin hafa verið upp og ég er með fyrir framan mig í grein sem skrifuð er af hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) og birt í Morgunblaðinu 11. desember sl.