135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:47]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég segi held ég að við hv. þm. Mörður Árnason séum ekkert ósammála um að gera þurfi málamiðlanir þegar ólík sjónarmið mætast. Mér finnst málamiðlanirnar blasa við og ég tek þær úr grein hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar sem birtust í Morgunblaðinu 11. desember 2007 og leyfi mér að segja að þau sjónarmið sem þar er talað fyrir hef ég aldrei heyrt hæstv. umhverfisráðherra blessa. Ég nefni t.d. þá kröfu hæstv. iðnaðarráðherra að tillit verði tekið til sérstöðu og efnahags Íslands, ríkisstjórnin vilji að tekið sé tillit til sérstöðu landa og efnahagsstöðu. Ég hef ekki heldur heyrt hæstv. umhverfisráðherra mæla bót því sjónarmiði Össurar að halda eigi fast í það frumkvæði okkar að vissir geirar framleiðslu, t.d. stál, sement og ál, fái úthlutað tilteknum kvótum. Ég hef ekki heyrt hæstv. umhverfisráðherra tala fyrir því sjónarmiði. Ég hef heldur ekki heyrt hana tala fyrir því að áfram eigi að fara fram á einhvers konar sveigjanleikaákvæði eins og gilti í Kyoto-samningnum. Þvert á móti vitna ég til Viðskiptablaðsins frá 17. október þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Það má vel vera að einhverjir séu þeirrar skoðunar að ákvörðun 14/CP.7 [íslenska ákvæðið] sé aðalhagsmunamál Íslendinga, en ég er ekki sama sinnis. Hagsmunir Íslendinga eru þeir sömu og allra annarra, það er að segja að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda á alþjóðavísu.“

Það er skilyrðislaust af hálfu ráðherrans. Ég er þessarar skoðunar líka, en ég er ekki þeirrar skoðunar sem hæstv. iðnaðarráðherra talar (Gripið fram í.) fyrir í Morgunblaðinu 11. desember sl. (Gripið fram í.)