135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

lánshæfiseinkunn Moody's.

[13:37]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Matsfyrirtækið Moody's sendi frá sér skýrslu í gær þar sem lagt var mat á lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skýrsluhöfundar ræða þar þá hættu sem stafar af mögulegri kreppu í bankastarfsemi í heiminum og benda á að slík kreppa mundi reyna á þolrif allflestra og langflestra ríkisstjórna heims. Því sé nauðsynlegt að skoða vel hvernig ríki bregðist við verstu mögulegu stöðu sem upp getur komið á fjármálamarkaði.

Moody's bendir á að vegna mikilla umsvifa íslensku bankanna á alþjóðavettvangi sé ástæða til að vera sérstaklega á varðbergi þar sem Ísland sé þar með berskjaldaðra fyrir brestum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum en önnur háþróuð iðnríki. Geta ríkissjóðs til að bregðast við slíkum brestum hefur mikið að segja og hefur úrslitaáhrif á lánshæfi ríkissjóðs. Niðurstaða greiningarfyrirtækisins er að Ísland njóti þess við matið hve háar tekjur séu hér á mann, hve aldursskipting þjóðarinnar sé hagstæð, að lífeyrissjóðirnir séu fjármagnaðir að fullu og að innviðir stjórnkerfisins, efnahagskerfisins og félagskerfisins séu traustir. En megináherslan er sú að hin gríðarlega sterka staða ríkissjóðs Íslands tryggi að hægt sé að grípa til allra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru ef til þess kemur, ef svo ólíklega vill til, að öll ytri skilyrði gangi okkur í mót.

Í ljósi þeirra vandamála sem uppi hafa verið á hlutafjármarkaði að undanförnu, og helst má rekja til hræringa á fjármálamörkuðum, tel ég rétt að hæstv. forsætisráðherra geri Alþingi stuttlega grein fyrir afstöðu sinni til þessa mats Moody's. Ég tel jafnframt nauðsynlegt að kalla fram viðbrögð hæstv. forsætisráðherra vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum að úr skýrslu Moody's megi lesa þá niðurstöðu að íslenska krónan sé of lítil fyrir bankakerfið og heppilegast sé að íslensku bankarnir flytji höfuðstöðvar sínar úr landi.