135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

lánshæfiseinkunn Moody's.

[13:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er vissulega hárrétt, sem hv. þingmaður undirstrikaði, og kemur fram í þessu áliti, að grunnurinn að þessu góða mati er að sjálfsögðu hin sterka staða ríkissjóðs sem tekist hefur að byggja upp á undanförnum árum. Vakin er athygli á því í skýrslunni að nettóskuldir ríkissjóðs séu nánast engar og þar af leiðandi sáralitlar í samanburði við aðrar þróaðar þjóðir. Þetta skiptir miklu máli ef reyna skyldi á lánstraust ríkissjóðs, ef ríkissjóður skyldi ákveða að fara á markaðinn til að tryggja stöðu sína eða auka gjaldeyrisforðann í landinu. Ríkissjóður er þess vegna mikilvægur bakhjarl þeirrar miklu, öflugu og jákvæðu fjármálastarfsemi sem hér hefur verið að byggjast upp. Vel má vera að hægt sé með tilteknum ráðum, eins og vikið er að í skýrslunni, að gera enn betur varðandi möguleika á að auka laust fé o.s.frv. Slíka möguleika munum við að sjálfsögðu skoða eftir atvikum á hverjum tíma.