135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

skipun ferðamálastjóra.

[13:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. iðnaðarráðherra en svo vill til að hæstv. ráðherra fer frá og með áramótum sömuleiðis með ferða- og byggðamál. Hann er sem sagt ráðherra ferðamála og byggðamála jafnframt því að vera ráðherra iðnaðarmála.

Hæstv. ráðherra skipaði með tilþrifum ferðamálastjóra skömmu eftir áramót. Ætla ég ekki að rekja það mál nánar. Það er nokkuð kunnuglegt af umræðum. En það sem vekur athygli mína er sú staðreynd að meðal umsækjenda var forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu en yfir henni er ferðamálastjóri. Ferðamálastofa er með starfsstöðvar bæði á Akureyri, þar sem fimm manns starfa, og í Reykjavík, þar sem um átta manns eru við störf.

Þessi umsækjandi sótti um starfið, mjög hæfur og vel menntaður og gegnir trúnaðarstörfum á þessu sviði með ósk eða skilyrðum um að gegna því frá Akureyri, að hafa aðstöðu á starfsstöð Ferðamálastofu á Akureyri. Hann fékk skilaboð frá ráðuneytinu um að þar hefði sú ákvörðun verið tekin að starfið skyldi vera í Reykjavík. Umsögn hans, með þessu tilboði eða skilyrði, var sem sagt hafnað og gefin sú skýring að það væri ákvörðun ráðuneytisins að starfið skyldi vera í Reykjavík. Nú er þetta engu að síður ríkisstjórn sem hefur í stjórnarsáttmála sínum að auglýsa beri störf eftir því sem kostur er án staðsetningar til að auðvelda að flytja verkefni út á landsbyggðina.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra ferðamála, og byggðamála ekki síður, hverju það sætir að svör ráðuneytisins voru á þessa leið. Þetta snýst ekki um hvort niðurstaðan varð að lokum að ráða (Forseti hringir.) viðkomandi mann eða einhvern annan. Það er efni út af fyrir sig. En hvers vegna afgreiðir ráðuneytið erindið (Forseti hringir.) með þessum hætti, þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar um að auglýsa störf án staðsetningar?