135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

starfsemi íslensku bankanna.

[13:51]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það málefni sem ég vil ræða er ekki með öllu alveg óskylt því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson vék að áðan og tengist starfsemi íslensku bankanna. Við höfum hlýtt á svör hæstv. forsætisráðherra og ég fagna því að þessi umræða skyldi í raun hefjast áður en ég kom fyrirspurn minni að. Ég verð þó að játa að ég er litlu nær um aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið fram, bæði í fjölmiðlaviðtölum við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra og síðan í umræðum hér í þinginu, að miklir peningar séu í ríkissjóði. Það hefur heyrst í þessum sal síðan ríkisstjórnin settist að völdum í vor, að hún eigi mikla peninga. Lengra nær stjórnviskan ekki en að til sé fullur poki af peningum. Það hefur ekki einu sinni fengist umræða um það hvernig hann skuli notaður, t.d. í þeirri … (Gripið fram í: Á ekki þjóðin þetta?) Varðandi það frammíkall, hvort þjóðin eigi þessa peninga eða ríkið, þá er það túlkunaratriði hvort þjóðin eigi ríkið. Hún finnur mismikið fyrir því.

En ég vil ræða sérstaklega um hvort ríkisstjórnin hafi einhver áform uppi til að mæta aðstæðum í hagkerfinu. Ég gef ekki mikið fyrir yfirlýsingarnar í þessum ræðustól rétt áðan, að ríkissjóður eigi peninga ef til kreppu kemur. Samkvæmt öllum alþjóðlegum skilgreiningum á efnahagskreppu er hún löngu skollin á hér með þeim miklu lækkunum sem hafa orðið á hlutafjármörkuðum.

Þess vegna spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Hvaða leiðir sér hann til að mæta þeim erfiðleikum sem hér eru? Á Íslandi ríkja mjög sérstakar aðstæður miðað við hagkerfi heimsins. Seðlabanki Íslands er einn alminnsti banki landsins. Það skapar mjög óvanalegar aðstæður (Forseti hringir.) , þ.e. þær aðstæður að við höfum ekki sömu möguleika og margar aðrar þjóðir til að mæta þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir veröldina.