135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

starfsemi íslensku bankanna.

[13:53]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta þá er langt frá því að hér ríki kreppa og er ástæðulaust fyrir hv. þingmenn að reyna að tala upp kreppuótta í því samhengi. Þótt vissulega hafi ýmislegt gengið á á mörkuðum á síðustu vikum og mánuðum er margt sem bendir til að það ástand sé að batna. Markaðir víða um heim hafa farið upp á síðustu dögum. Þar er ýmsu að þakka eða ýmislegt sem hefur áhrif á það.

En hvað varðar skýrslu Moody's sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og tengdi það við aðgerðir stjórnvalda til að styrkja stöðu sína sem bakhjarl bankanna eða lánveitanda til þrautarvara, þá er niðurstaða skýrslunnar nákvæmlega sú að hún er fyrirtak fyrir ríkissjóð og fyrir bankana. Út af því að Moody's telur líkur á því að íslensk stjórnvöld geti mætt lausafjárbresti, varið innstæðueigendur og forðast greiðsluþrengingar, eins og segir hér, jafnvel við sérstaklega erfið skilyrði. Það er ánægjuefni.

Þær blikurnar sem Moody's bendir á að séu á lofti eru þær einar að áframhaldandi vöxtur íslensku bankanna erlendis geti gert það að verkum að erfitt verði að standa undir þessu hlutverki. Það er okkar hlutverk að skoða framtíðina, ef við göngum út frá því að bönkunum muni áfram ganga vel. Siglingin á þeim hefur verið einstök. Það hefur styrkt stöðu okkar í þessum fjármálaþrengingum víða um heim á síðustu vikum hve góð og sterk staða íslensku bankanna er. Þess vegna er margt jákvætt í þessu mati.

Þær krossgötur sem lánshæfismatið bendir á eru að áframhaldandi útrás og vöxtur bankanna geti breytt þessari stöðu. Þar er ýmislegt sem hægt er að skoða, sem tengist spurningu þingmannsins áðan, eins og t.d. formlegt myntsamstarf okkar við þau svæði þar sem bankarnir eru umfangsmestir, aukinn varasjóður og gagnkvæmar aðgerðir á milli myntsvæða og bankanna þar, komi til erfiðleika.