135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[14:08]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég sagði ekkert um það hvort þetta væru yfirleitt góð mál sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja fram en ég vil samt segja það við hæstv. ráðherra að mér finnst í raun vera hörgull á málum, a.m.k. í þeim nefndum sem ég sit. Hæstv. heilbrigðisráðherra er komin með 4 mál af 15. Ég á ekki von á að það verði góð mál sem hann kemur fram með en ef þau koma fram á annað borð væri ágætt að fara að fá þau.

Ég geri mér líka grein fyrir að það var ákaflega gott ástand í þjóðfélaginu þegar ríkisstjórnin tók við og þess vegna skil ég mjög vel að ekki þurfi að flytja mörg mál. Engu að síður eru þetta upplýsingarnar sem hæstv. forsætisráðherra gaf okkur á haustdögum að það ætti að flytja upp undir 200 mál. Þau hafa kannski gufað upp flestöll eða kannski getum við fengið eitthvað nánari upplýsingar um öll þessi mál, hvort þau eru í alvöru í pípunum eða hvort hæstv. ríkisstjórn er hætt við að flytja þau.