135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:21]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er staðreynd að fiskveiðistjórnarkerfið er gjaldþrota. Það er staðreynd að markmið núverandi laga hafa ekki náðst og lögin hafa aldrei verið fjær markmiðum sínum en í dag, þ.e. að vernda fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra og treysta atvinnu og efla byggð í landinu.

Það er staðreynd að þörf er á heildarendurskoðun á kerfinu. Það er líka staðreynd að helsti varðhundur þessa gjaldþrota kerfis síðastliðin 17 ár er Sjálfstæðisflokkurinn og hann þverskallast enn við nánast öllum breytingum á þessu kerfi og sveltir Hafrannsóknastofnun og aðra sem stunda rannsóknir á lífríki hafsins fjárhagslega. Jafnframt er það staðreynd að aðgengi íslenskra fiskverkenda sem ekki hafa kvóta hefur verið takmarkað og þeir sitja ekki við sama borð og erlendir fiskverkendur. Það er enn fremur staðreynd að þessi fiskveiðistjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins hefur leitt til samþjöppunar veiðiheimilda og brasks með veiðiheimildir og hefur leitt til einokunar og skert eintaklingsfrelsi í sjávarútvegi. Það er staðreynd að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hrökkva engan veginn til og koma auk þess allt of seint. Það er líka staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi valdatímabils síns lagst gegn byggðastyrkjum, þó svo að landsbyggðarfólk sé ekki að biðja um styrki, ekki að biðja um ölmusu, heldur að fá að sitja við sama borð og aðrir landsmenn.

Það er líka, herra forseti, himinhrópandi staðreynd að öflugasta mótvægisaðgerðin í þessu máli er í höndum Samfylkingarinnar. (Gripið fram í: Hvað getur hún …?) Hún er sú að koma Sjálfstæðisflokknum út úr ríkisstjórninni og mynda öfluga landsbyggðarþenkjandi og landsbyggðarstyrkjandi félagshyggjustjórn. Það er meiri hluti fyrir slíkri stjórn á (Forseti hringir.) Alþingi.