135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:30]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru alvarleg og vond tíðindi þegar við fréttum af uppsögnum fiskvinnslufólks, þau eru vond og þau eru sár. Ég þekki það af eigin raun að það eru tíðindi og veruleiki sem hafa slæm áhrif, sérstaklega á minni byggðarlög þar sem sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein. Annars staðar er atvinnuástand það gott að skaðinn er minni.

Við gátum hins vegar búist við þessum tíðindum eftir ákvörðun um niðurskurð þorskaflahámarksins. Sú ákvörðun var reyndar nauðsynleg vegna ástands þorskstofnsins. Við Íslendingar viljum stunda arðbærar og sjálfbærar veiðar. Þrátt fyrir skoðanir hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, er nauðsynlegt að stunda sjálfbærar veiðar. (Gripið fram í.) Því er það skylda okkar að takast á við vandann sem fylgir lélegu ástandi þorskstofnsins.

Það er ekki það eina. Um langt skeið hefur orðið mikill samdráttur í mannaflaþörf í fiskvinnslu. Tækninýjungar hafa orðið til þess að afköst hafa orðið sífellt meiri og algengt er að afköst hafi aukist um helming á síðustu 10–15 árum með helmingi færra fólki þegar horft er til fiskvinnslufyrirtækja. Það á einnig við um fiskiskipin, þau hafa orðið afkastameiri. Hins vegar hefur magn fisks í sjónum því miður ekki aukist. Það leiðir af sér að horfa þarf til nýrra atvinnuhátta vítt og breitt um landið.

Í þeim mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin greip til og boðaði strax í september er gert ráð fyrir að hluti þeirra snúi að nýsköpunarverkefnum. Mikilvægt er að allir leggist á eitt til þess að efla nýsköpun í atvinnulífinu, sérstaklega í hinum smærri byggðum. (Gripið fram í.) Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að horfa til nýrra tækifæra sem byggja á styrkleikum hvers byggðarlags, hv. þingmaður Grétar Mar, og veita því fólki sem stundað hefur störf tengd sjávarútvegi tækifæri til að þjálfa sig til nýrra starfa. Það ástand sem nú ríkir á að gefa okkur aukinn kraft til að umbreyta atvinnulífi smærri byggðarlaga með það í huga að aukin fjölbreytni atvinnulífsins verði (Forseti hringir.) styrkur allra til framtíðar.