135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

matvæli.

326. mál
[14:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að flytja frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli sem lýtur fyrst og fremst að rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að snerta matvæli og allt gott um það. En ég velti fyrir mér lagasetningunni um matvælin sjálf. Ég er ekki viss um að þar sé allur lagagrunnur fyrir hendi til að rekja uppruna og feril matvælanna sjálfra eða hvað hefur í þau verið sett. Það er gott að setja lög og reglur um umbúðir og það er alveg hárrétt að það fylgi rekjanleiki þeirra en ég vil spyrja hæstv. ráðherra um rekjanleika allra þátta sem settir eru í matvörurnar, bæði innlendar og sérstaklega innfluttar vörur. Að því er ég best veit er það enn í ólestri, það eru ekki til skýr lög eða reglur um það og ekki hægt að ganga að samþykktum, m.a. Evrópusambandsins, hvað það varðar.

Svo er líka stjórnsýsluleg staða þessa máls. Það er talað um að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fari með eftirlit með rekjanleika umbúða og annarra efna en hins vegar fer umhverfisráðuneytið með efnin og mengunina ef um það gæti verið að ræða. Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé stjórnsýsluleg óvissa um stöðu mála hvort heldur það er hjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu eða hjá umhverfisráðuneytinu, leifar af því rugli sem var framkvæmt fyrir jólin að stokka upp stofnanir og skipta þeim upp á milli ráðuneyta án þess að menn sæju fyrir sér allt til enda í þeim efnum.