135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

matvæli.

326. mál
[14:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðherra varðandi mikilvægi þess að rekjanleiki bæði vöru og umbúða sé alveg klár, það skiptir miklu máli fyrir okkur sem matvælaþjóð og reyndar ekki síður sem neytendur, að svo sé. Ég hef gagnrýnt það m.a. hvað varðar málflutning þeirra sem vilja frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum, að þá stöndum við frammi fyrir því að það er ekki búið að setja neinar reglur sem hægt er að fylgja því eftir hvaða efni eða hvers konar blöndun er í þeim landbúnaðarvörum sem fluttar eru inn en hins vegar erum við með harðar reglur hér innan lands. Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra sæi til þess að slík lög, sem kveða skýrt á um rekjanleika efna, yrðu sett sem allra fyrst.

Ég vil aftur vekja athygli á þeirri stjórnsýslulegu stöðu sem þarna er uppi. Ég hef ekki miklar athugasemdir við það að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fari með rekjanleika umbúðanna en mér er nær að halda að Matvælastofnun eigi að fara með það eftirlit sem lýtur að innihaldinu. Þarna erum við því með tvenns konar eftirlit, annað stjórnsýslustig sem fylgist með umbúðunum og hitt sem fylgist með innihaldinu.

Auk þess vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það sem stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.“

Það má vel vera. En hvað er verið að velta þarna miklum kostnaði og vinnu og ábyrgð á sveitarfélögin? Samkvæmt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga ber að kostnaðarmeta frumvarp með tilliti til kostnaðar sem sveitarfélögin verða fyrir. Það er gott og vel að sveitarfélögin fái þessi verkefni og heilbrigðiseftirlitið en það verður líka að gera ráð fyrir því hvað það kostar þau, hversu mikið umfang er verið að tala um. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að leggja fram frumvarp með þessum hætti sem er kostnaður við annað stjórnsýslustig án þess að nánar sé gerð grein fyrir því, frú forseti.