135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:03]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér er frumvarp um sjávarútvegsmál sem þrír þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði flytja. Maður skyldi þá ætla að í því frumvarpi kæmi fram með einhverjum hætti stefna þess stjórnmálaflokks.

Í 11 liðum er hér talið upp hvert sú endurskoðun eigi að leiða sem minnst er á frumvarpinu. Ég verð að segja, að mér finnst, þegar ég horfi á þessa 11 liði, ég sjá fyrir mér svona þriggja áratuga sjávarútvegsumræðu þar sem öll sjónarmið eru sett saman og ekki skeytt um hvort þau falli í raun og veru saman eða hvort þau standa hvert gegn öðru.

Sjávarútvegurinn á að vera undirstöðuatvinnugrein á Íslandi, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, en um leið á að haga honum þannig að hann sé eins konar félagsmálastofnun, að hann sjái um réttláta og sanngjarna dreifingu milli þeirra sem þar eiga heima, milli þeirra sem að koma o.s.frv. Hann á að stuðla að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum.

Í frumvarpinu er orð sem óðum er að úreldast, þ.e. fullvinnsla, og unninn afli. Minnst er á fiskmarkaði en þeir eiga aðeins að ná að því sem núverandi fiskvinnsluhús ekki sinna eða vilja ekki. Það er sem sé ekki tekið undir það baráttumál að allur fiskur fari á markað og þannig verði skapaðar réttlátar leikreglur.

Síðan er ákaflega hulduhrútslegt orðalag hér frá þessum þremur VG-þingmönnum um að afnotaréttareðli veiðiheimildanna verði undirstrikað. Það á að taka penna og undirstrika það, afnotaréttareðli, og draga úr braski. Ég vil spyrja sérstaklega um þetta: Hver er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um afnotaréttareðli veiðiheimildanna?