135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Atli Gíslason verður að fyrirgefa að þegar mælt er fyrir frumvarpi um sjávarútvegsmál með þeim þokukennda hætti sem raun ber vitni verði viðbrögðin af þessu tagi.

Um afnotaréttareðli veiðiheimildanna hlýtur maður að spyrja, þegar tekið er svona til máls um þau: Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð reiðubúin til þess að ganga í það mál með skilvirkum hætti til þess að koma hinu ágæta afnotaréttarlega eðli veiðiheimildanna á, þ.e. að ríkið leysi þær til sín eins og þingmaðurinn hv. sagði — ekki auðvitað allar í einu en með einhverjum þeim hætti að við verði unað — og deili þeim síðan út með réttlátum og sanngjörnum hætti gegn gjaldi fyrir þessi afnot?

Þetta er einföld spurning en samt hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki getað svarað henni í öll þau ár sem hún hefur verið til, frá árinu 1999. Þess vegna er enn spurt: Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð tilbúin til þess að gera þetta eða er hún það ekki?