135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:10]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þarft verk að leggja fram frumvarp af þeim toga sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa gert hér en þá verður líka að gera þær kröfur að nokkuð ljóst sé hvert stefnt sé með því. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem segir að frumvarpið sé mjög þokukennt og óljóst á margan hátt.

Ég hef hins vegar lesið út úr frumvarpi vinstri grænna að í því felst viðurkenning á fiskveiðiréttarhugtakinu. Það er að vísu ekki sagt beinum orðum en þegar maður les síðan ýmislegt annað sem þar er sagt, verður ekki önnur ályktun dregin af því. Ég fagna því í sjálfu sér. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmönnum að mjög mikilvægt sé að fiskveiðirétturinn sé skýr. Það er örugglega ein forsendan fyrir því að við höfum náð árangri, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan. Við höfum aukið verðmætasköpun okkar og svo framvegis. Ljóst er að ein forsendan fyrir því að við getum sinnt ferskfisksmörkuðum og ýmsum dýrari mörkuðum er að menn hafi nokkra vissu fyrir því hvað þeir geta boðið, hver framtíðin er og þar fram eftir götunum.

Mér finnst hins vegar að hlutirnir stangist dálítið á í frumvarpinu. Annars vegar er ýjað að því að skýr fiskveiðiréttur skuli vera með tilteknum kvöðum. Síðan er sagt að mjög mikilvægt sé að sjávarútvegurinn geti skapað vel launuð störf. Það er auðvitað kjarni málsins. Sú staða er uppi að sjávarútvegurinn hefur ekki þá yfirburði sem hann hafði áður. Nú eru komnar aðrar atvinnugreinar sem eru fullfærar um að keppa við sjávarútveginn, bæði um fólk og fjármagn. Þess vegna þarf sjávarútvegurinn auðvitað að hafa öll nauðsynleg tæki til að geta hagrætt, lækka kostnað og auka þannig framlegð og búa svo til forsendur þannig að hann geti borgað há laun.

Við verðum þá að gæta þess líka, á sama tíma og menn lýsa þessu sem einu af meginmarkmiðunum, að leggja ekki slíkar kvaðir á sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar að hann geti ekki slegist um fólk og fjármagn, að hann geti ekki hagrætt eins og nauðsynlegt er til þess að verða sú atvinnugrein sem hann þarf að vera í framtíðinni svo að ungt fólk sækist í greinina vegna góðra launa.

Er hv. þingmaður ekki að minnsta kosti sammála mér um að sjávarútvegurinn verði þess vegna að hafa þessi tæki til hagræðingar? Er ekki augljóst mál að það muni síðan leiða til þess að fólki fækkar vegna (Forseti hringir.) tækniþróunar og þess háttar?